Umfjöllun og viðtöl: Keflavík 1-3 FH | Hafnfirðingar komnir aftur á sigurbraut

Gabríel Sighvatsson á Nettó-vellinum í Keflavík skrifar
vísir/bára
FH-ingar komust aftur á sigurbraut í Pepsi deildinni með 3-1 sigri á Keflavík suður með sjó í kvöld.

 

Ef það var einhvern tímann að duga eða drepast fyrir Keflavík þá var það í kvöld er liðið tók á móti FH úr Hafnarfirði í 18. umferð Pepsídeildar karla. Keflavík leitar enn að sigri í efstu deild og þrátt fyrir góða spilamennsku í kvöld var niðurstaðan enn eitt tapið. 

 

Keflavík byrjaði betur fyrstu 20-30 mínúturnar. Það var meiri barátta í liðinu og liðið virtist hafa meira sjálfstraust en oft áður. Dagur Dan Þórhallsson sem hefur verið langbesti leikmaður liðsins síðan hann kom inn í byrjunarliðið kom heimamönnum yfir eftir 24 mínútur með góðu skoti sem Gunnar Nielsen í marki FH náði ekki til.

 

Eftir markið datt Keflavík neðar á völlinn og það gat FH nýtt sér. Það var því verðskuldað þegar Steven Lennon jafnaði metin 10 mínútum seinna en þar endaði skot Atla Guðna beint fyrir fætur hans.

 

Það má segja að heppnin hafi verið með FH í liði í kvöld, því í seinni hálfleik skoruðu þeir tvö skrautleg mörk til að klára leikinn.

 

Hægt er að skrá bæði mörkin sem sjálfsmörk á þá Aron Kára Aðalsteinsson og Marc McAusland en í bæði skiptin barst boltinn yfir á hægri kantinn þar sem Cédric D'Ulivo átti fyrirgjöf í fyrra skiptið og Brandur Olsen skot í seinna skiptið.

 

Boltinn fór af varnarmanni og yfir Jonathan Mark Faerber sem stóð vaktina í rammanum hjá heimamönnum í kvöld í stað Sindra Kristins Ólafssonar.

 

Eftir það var allur vindur úr heimamönnum og áttu þeir ekki mikið af færum eftir það. Það var helst skot Lasse Rise í slána sem hefði með örlítilli heppni getað endað í marki.

 

Keflavík áfram með 4 stig á botninum og 12 stig í næsta lið, þegar 4 leikir eru eftir á meðan FH heldur Evrópudraumnum á lífi.

 

Ólafur Helgi Kristjánsson, þjálfari FH, var ánægður með að fá loksins 3 stig í kvöld.

„Það skiptir miklu máli, það er ljóst. Við náðum góðum tökum á leiknum í seinni hálfleik þegar við fórum út í breiddina og notuðum vængbakverðina og vorum þolinmóðir í síðustu sendingu. Þá náðum við að skapa góð færi og það var góður bragur á liðinu.“

 

„Eins og ég segi, mér fannst mjög góður bragur á okkur í seinni hálfleik, það vantaði smá ákefð í fyrri hálfleik. Keflavík skorar gott mark sem gefur þeim von, þetta er gríðarlegt fótboltalið, Keflavík en þeir hafa ekki haft heppnina með sér í sumar, fullt af ungum og flottum strákum þarna.“

 

Heppnin var með FH í kvöld, seinni tvö mörk liðsins er hægt að skrá sem sjálfsmörk á Keflavík.

„Við höfðum hana örugglega með okkur, ég sagði það þegar fyrra markið kom og það var ágætt að fá eitt skítamark, við höfum ekki fengið þannig mörk í sumar. Svo kemur annað markið sem ég efast ekki um að Eysteinn (Húni Hauksson, þjálfari Keflavíkur) tali um sem skítamörk, þetta féll með okkur og við tökum skítamörkunum fegins hendi.“

FH heldur í við KR í kapphlaupinu um fjórða sætið sem gefur þáttökurétt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

„Við erum í möguleika, svo er bara spurning hvernig við spilum úr því, það er leikur við KR næstu helgi sem eru fyrir ofan okkur á góðu skriði. Við þurfum að vera klárir í þann leik og það veltur svolítið á honum hvernig hann fer, hvernig möguleikarnir eru, það segir sig sjálft, þremur stigum á undan og nokkrum mörkum, þá eru möguleikar KR meiri en okkar.“ sagði Óli Kristjáns að lokum.

 

Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, fagnaði sigrinum innilega í kvöld.

„Þau eru heldur betur kærkomin, ég veit ekki hvað er langt síðan við unnum leik síðast, þetta var sætt. Við vorum góðir í seinni hálfleik. Héldum boltanum vel og opnuðum þá en hefðum getað skorað fleiri mörk. Í fyrri hálfleik fannst mér við að stórum hluta lélegir, þeir eiga skilið að komast yfir. Öll mörkin okkar höfðu heppnisstimpil yfir sér.“

 

Keflavík komst yfir í leiknum í kvöld en FH jafnaði fyrir seinni hálfleik þar sem þeir settu síðan tvö mörk með smá heppni.

„Við vorum smá „sjokkeraðir“ að fá þetta mark á okkur og það hjálpar okkur að skora okkar mark. Það gaf okkur smá trú að fara 1-1 inn í hálfleikinn frekar en 1-0.“

„Ég mætti ekki á þennan leik í dag og hélt við myndum fá tvö sjálfsmörk en í báðum þessu mörkum erum við komnir í þeirra á og það er hluti af fótbolta að þegar þú ert komin í góðar stöður og neglir honum fyrir markið, þá er oft nóg að fá „touch“ það skiptir ekki máli frá hverjum það er.“

 

Davíð Þór mat möguleikana góða gegn KR í næsta leik og að ná Evrópusæti.

„Við erum í þeirri stöðu núna að við þurfum að hugsa um einn leik í einu og það er stórleikur á sunnudaginn á móti KR. Við þurfum að skoða hvað við hefðum getað gert betur í þessum leik og reyna að laga það fyrir sunnudaginn af því það er eins og allir aðrir leikir sem við eigum eftir á þessu móti algjör „must-win“ leikur fyrir okkur.“

 

„Ég er ennþá sannfærður um að við náum okkar leik og spilum góðan fótbolta og erum á tánum, ólíkt fyrri hálfleik hér. Þegar við erum á tánum og klárir í leiki þá erum við mjög gott lið og ekki með lakara lið en aðrir í þessari deild. Við þurfum að ná fleiri þannig leikjum og það er tilvalið að ná þannig leik næsta sunnudag.“

 

Eysteinn Húni Hauksson, þjálfari Keflavíkur, þurfti að sætta sig við tap í kvöld en hrósaði spilamennskunni.

„Mér fannst fyrri hálfleikurinn virkilega lykta af því að við ættum möguleika í þessum leik. Það ver gert nokkurn veginn það sem um var beðið. Það var mikill kraftur í mönnum og menn voru nálægt hvor öðrum. Þeir sköpuðu sér færi í fyrri hálfleik teljandi á hornum nauts og þeir voru orðnir nokkuð pirraðir að mér sýndist.“

 

Keflvíkingar voru óheppnir í seinni hálfleik.

„Í seinni hálfleik fá þeir tvö gefins mörk frá æðri máttarvöldum og það er erfitt að eiga við það.“

„Þeir eiga hrós skilið, strákarnir. Það er enginn hættur hérna. Gengið er hræðilegt og ég sem þjálfari þarf að horfast í augu við það.“

„Þeir koma alltaf hingað til að berjast. Þessi umræða um að það sé engin barátta í Keflavík er algjört kjaftæði! Hins vegar þegar mörkin koma á okkur, þá fer kassinn aðeins inn á við og við þurfum að breyta því. Við þurfum að hætta að láta mörk slá okkur í magann þannig að við dettum svona út strax á eftir,“ sagði Eysteinn og bætti við.

„Eftir að þeir jöfnuðu þá var seinni hálfleikur ekki nógu góður hjá okkur og mér fannst við ekki gera það sem við lögðum upp varðandi að við ætluðum að keyra á þá. Þá fengum við hættuleg færi, skot í slá og annað en ég held að við höfðum geta spilað seinni hálfleikinn miklu betur og þetta hefði ekki þurft að vera svona auðvelt fyrir þá að fá að halda boltanum eins og raun bar vitni.“

 

Eysteinn var svekktur með mörkin sem þeir fengu á sig en það var ekki við hans menn að sakast þar.

„Þau eru allavega ekki út af því að við vorum latir eða kærulausir. Að því leyti til þá hefði ég verið svekktari ef þetta hefði verið mörk þar sem við erum ekki að dekka mennina okkar eða eitthvað slíkt en þetta er eitthvað sem ég hef ekki stjórn á. Við þurfum að gera betur og reyna að læra af hverjum leik.“

 

Keflavík er á leið niður, það er ekki nokkur spurning en þeir ætla að reyna að færa stuðningsmönnunum einhver stig áður en þeir kveðja.

„Það hefur litið út fyrir það dálítið lengi en við töluðum um það fyrir leik að það væri um 15 stig að berjast alveg sama um alla utanaðkomandi þætti. Þeir gerðu sitt besta, lögðu sig fram en það þarf að vera bland af því og fótboltaheila.“

„Ef einhverjir eiga það (stig) skilið þá eru það okkar stuðningsmenn, ekki nokkur spurning.“

 

 

 

 

 

 

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira