Enski boltinn

Níu ár síðan að lið féll síðast í ágústmánuði: Keflavík setti tvö óvinsæl met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Keflavík.
Þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir Keflavík. Fréttablaðið/Þórsteinn
Keflvíkingar eru fallnir úr Pepsi-deildinni þrátt fyrir að Suðurnesjaliðið eigi enn eftir að spila fjóra leiki á tímabilinu.

Keflavík er tólf stigum á eftir Fylki og Fjölni og gæti því náð þeim báðum að stigum ef þau ættu ekki eftir að mætast. Fylkir og Fjölnir eiga hins vegar eftir að mætast og enda því ekki bæði með 16 stig. Keflavík kemst því aldrei upp fyrir þau bæði og er fallið í Inkasso deildina.  

Keflavík varð þar með fyrsta liðið til að falla úr tólf liða deild með tólf stig ennþá í pottinum. Tólf liða deild var tekin upp árið 2008.

Það voru ennfremur liðin níu ár síðan að lið féll síðast í ágústmánuði en Þróttarar féllu á síðasta degi ágústmánaðar árið 2009. Keflavíkingar slógu aftur á móti það met í sumar og hefur því sett tvö óvinsæl met í tólf liða deild.

Keflavíkurliðið hefur aðeins náð í samtals fjögur stig úr átján leikjum í sumar og á enn eftir að vinna leik í Pepsi-deildinni.

Keflavík hefur aðeins skorað 8 mörk á 1620 mínútum eða mark á 202 mínútna fresti. Það líða því að meðaltali miklu meira en tveir heilir leikir á milli marka hjá Keflavíkurliðinu.

Hér fyrir neðan má sjá þessi tvö met sem Keflvíkingar settu með því að falla úr Pepsi-deildinni í gær.

Flestir leikir eftir hjá liði sem fellur úr 12 liða deild:

4 - Keflavík, 2018

3 - Þróttur, 2009

3 - Víkingur R., 2011

3 - Grindavík, 2012

3 - ÍA, 2013

3 - Þór Ak., 2014

3 - Keflavík, 2015

2 - ÍA, 2008

2 - Fjölnir, 2009

2 - ÍA, 2017

Fljótastir til að falla í 12 liða deild:

26. ágúst (Keflavík - 2018)

31. ágúst (Þróttur - 2009)

13. september (Keflavík - 2015)

14. september (Þór Akureyri - 2014)

15. september (Fjölnir - 2009)

15. september (Víkingur R. - 2011)

16. september (Grindavík - 2012)

18. september (ÍA - 2008)

18. september (ÍA - 2013)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×