Erlent

Óttast afdrif langlífasta Marsjeppans eftir tröllaukinn sandstorm

Kjartan Kjartansson skrifar
Skuggi Marsjeppans Opportunity á yfirborði rauðu reikistjörnunnar árið 2014.
Skuggi Marsjeppans Opportunity á yfirborði rauðu reikistjörnunnar árið 2014. NASA/JPL-Caltech

Ekkert hefur heyrst frá könnunarjeppanum Opportunity í áttatíu daga frá því að risavaxinn sandstormur geisaði á yfirborði reikistjörnunnar Mars í júní. Stjórnendur jeppans hafa þó ekki gefið upp alla von um að hann sé enn með lífsmarki.

Storminum, sem náði um tíma yfir alla reikistjörnuna, slotaði ekki fyrr en í síðasta mánuði en ryk er enn í lofti nærri Endeavour-gígnum þar sem síðast spurðist til Opportunity. Rykið hefur lokað á sólarljósi sem Marsjeppinn reiðir sig á til að knýja sig áfram. Sambandið við jeppann rofnaði 10. júní en hann virðist hafa lagst í dvala vegna aðstæðna.

„Við vitum einfaldlega ekki hvað gerist. Það er aðeins ein leið til að komast að því og það er að hlusta,“ segir Steve Squyres, aðalvísindamaður Opportunity-leiðangursins við Space.com.

Nístingskuldi er talinn helsta ógnin sem steðjar að tækjum Opportunity. Án sólarljóss getur hann ekki knúið hitara sem eru um borð og þá gæti voðinn verið vís. Ekki er þó ljóst hversu mikinn kulda geimfarið þolir.

Opportunity og systurjeppinn Spirit lentu á Mars í janúar árið 2004. Upphaflega átti leiðangur þeirra að standa yfir í þrjá mánuði. Spirit hélt hins vegar ótrauður áfram til ársins 2010. Opportunity hefur gerst enn langlífari og hefur nú ferðast lengra um yfirborð annars hnattar en nokkuð annað geimfar, alls um 45 kílómetra.

„Þetta verður annað hvort undraverður bati eða sæmdardauði,“ segir Squyres.

Í millitíðinni hafa aðdáendur Opportunity sent jeppanum heillaóskir á samfélagsmiðlum undir myllumerkjunum #WakeUpOppy og #SaveOppy.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.