Erlent

Yfir 1.400 sögð hafa látist í Púertó Ríkó

Kjartan Hreinn Njálsson og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Frá hamfarasvæði í Púertó Ríkó eftir fellibylinn Maríu.
Frá hamfarasvæði í Púertó Ríkó eftir fellibylinn Maríu. Vísir/Getty
Ríkisstjórn Púertó Ríkó birti í gær skýrslu þar sem fram kom að 1.427 hafi farist vegna fellibylsins Maríu sem reið yfir eyjuna þann 20. september síðastliðinn. Sú tala er margfalt hærri en talan sem ríkisstjórnin gaf fyrst upp, 64. „Þótt hin opinbera tala látinna frá almannavarnastofnun Púertó Ríkó hafi í upphafi staðið í 64 virðist raunverulegur fjöldi mun meiri,“ sagði í skýrslunni.

Skýrslan verður send neðri deild Bandaríkjaþings eftir umsagnarferli og er í þessu uppkasti farið fram á 139 milljarða dala aðstoðarpakka en innviðir eyjunnar löskuðust gríðarlega í hamförunum.

Yfirvöld í Púertó Ríkó voru harðlega gagnrýnd fyrir að vantelja fjölda þeirra sem létust í kjölfar hörmunganna þegar innviðir landsins voru í molum og sjúkrahús óstarfhæf vegna rafmagnsleysis. Þar á meðal eru dauðsföll sem rekja má til sykursýki og blóðeitrunar.

Í skýrslunni er að finna metnaðarfulla áætlun um uppbyggingu Púertó Ríkó. Yfirvöld þar vilja fá fjármagn til að ráðast í meiriháttar viðgerðir á vegakerfi eyjunnar, uppbyggingu opinberra bygginga og skóla, ásamt því að gera umfangsmiklar breytingar á raforkukerfum á eyjunni.

„Púertó Ríkó hefur nú einstakt tækifæri til að innleiða nýjungar og endurbyggja Púertó Ríkó í þeirri mynd sem við öll viljum,“ sagði Ricardo Rosselló ríkisstjóri í yfirlýsingu til fjölmiðla.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×