Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: KA - FH 1-1 │Brandur bjargaði stigi fyrir FH

Jón Ágúst Eyjólfsson skrifar
Úr fyrri leik liðanna
Úr fyrri leik liðanna vísir/bára

KA og FH skiptu með sér stigunum í leikslok á Greifavellinum á Akureyri í kvöld. Það leit út fyrir sigur heimamanna þar til Brandur Olsen jafnaði metinn á 93. mínútu leiksins og lauk leiknum 1 – 1 .

Það var fátt um fína drætti framan af og var ekki að sjá að sigur héldi liðunum inni í baráttunni um evrópusæti. KA menn voru betri aðilinn úti á velli án þess þó að gera sig líklega á loka þriðjung vallarins. Þeir áttu vissulega álitlegar sóknir en alltaf vantaði herslumuninn til að klára sóknirnar.

Það segir allt um fyrri hálfleikinn að fyrsta tilraun gestanna sem hittir á markið kemur eftir 28 mínútna leik. Þá átti Brandur Olsen skot af löngu færi úr aukaspyrnu sem Aron Elí, sem stóð í marki KA, greip auðveldlega. Þegar Vilhjálmur Alvar flautaði fyrri hálfleikinn var staðan enn markalaus og fátt sem benti til þess að mörk kæmu í leikinn.

FH ingar komu sterkari út í seinni hálfleikinn og voru í við sterkari fyrstu 20 mínúturnar. Á 66. mínútu gerir Ásgeir Sigurgeirsson hins vegar mjög vel í því að vinna hornspyrnu fyrir KA upp úr nánanst engu. Hallgrímur Mar Steingrímsson tók spyrnuna og hreinlega teiknaði boltann á ennið á Callum Williams sem skilaði boltanum í netið. Staðan því orðin 1 – 0 fyrir heimamenn. Strax í kjölfarið á markinu áttu KA menn flotta sókn. Daníel Hafsteinsson slapp þá inn fyrir en Gunnar Nielsen gerði vel í að verja í horn.

FH ingar sóttu í sig veðrið síðustu 15 mínútur leiksins og á sama tíma færðust KA menn aftar á völlinn. Þrátt fyrir þunga pressu gestanna virtust heimamenn ætla að sigla þessu heim. Brandur Olsen var þó ekki á sama máli og á síðustu mínútu uppbótartímans jafnaði hann metinn fyrir FH inga með fallegu langskoti í fjærhornið. Óverjandi fyrir Aron Elí í markinu. Skömmu síðar flautaði Vilhjálmur Alvar leikinn af. Jafntefli niðurstaðan í heilt yfir bragðdaufum leik.

Hverjir stóðu upp úr?
Hallgrímur Mar Steingrímsson var sem oft áður allt í öllu í sóknarleik heimamanna og átti enn eina stoðsendinguna í sumar. Callum Williams hlýtur þó nafnbótina ,,maður leiksins“. Mark og flottur varnarleikur hjá honum í dag. Hjá FH ingum var aðeins einn leikmaður sem virtist hafa lífsmark og það var markaskorarinn Brandur Olsen. Aðrir leikmenn FH þurfa virkilega að stíga upp ef liðið ætlar sér í evrópukeppni á næsta tímabili.

Hvað gerist næst?
KA menn skella sér suður til Keflavíkur og mæta þar botnliði deildarinnar í afar mikilvægum leik næst komandi sunnudag. FH ingar fá Eyjamenn í heimsókn sama dag.

Tufa: Ósanngjarnt að við höfum ekki unnið
Srdan Tufegdzic, þjálfari KA, var að vonum svekktur með að fá á sig jöfnunarmark í uppbótartíma í kvöld.

,,Mér fannst ósanngjarnt að við skildum ekki hafa unnið þennan leik. Mér fannst við betri aðilinn allan tímann og í raun frábær leikur hjá mínu liði á öllum sviðum fótboltans.“ Tufa sagði varnarleik sinna manna hafa verið til fyrirmyndar og að FH hafi í raun ekki skapað sér eitt einasta færi.

Spurður að því hvort að hann hafi lagt sérstaka áherslu á varnarleikinn hér í dag stóð ekki á svari.

,,Ég meina, við erum að spila á móti FH. Lið sem hefur unnið einhverja sjö eða átta titla á síðustu 15 árum á meðan við erum svona meðal Inkasso lið“ og bætir svo við að þeir hafi verið að mæta ,,atvinnumannaliði með flotta þjálfara og þá þarftu að finna leiðir til að vinna leikinn.“ Hann segist hafa talið þessa leið réttasta og að í raun hafi hún gengið vel upp. ,,Mér fannst mínir strákar frábærir í dag. Þeir skildu allt eftir úti á vellinum og sýndu að það skiptir ekki máli hver labbar út og hver er mótherjinn. Ef við spilum svona erum við alltaf líklegir til að vinna leikinn.“

KA menn eru sem stendur í sjöunda sæti deildarinnar með 19 stig og ótrúlega stutt í fallsætið. Næsti leikur þeirra er gegn botnliði Keflavíkur og sigur þar því afar mikilvægur. ,,Við ætlum að fara þangað og sækja sigur, hugsum ekkert um tap. Fyrst þurfum við að ná okkur niður eftir þennan leik og höggið sem jöfnunarmark í uppbótartíma var. Þetta er bara næsta verkefni og við verðum klárir í það.“

Eins og oft áður í sumar vantaði þó nokkra byrjunarliðsmenn í KA liðið. Menn á borð við Guðmann, Hallgrím Jónasar, Steinþór Frey og Cristian Martinez komu ekkert við sögu í kvöld. Tufa sagði tímann leiða það í ljós hvort að einhver þessa leikmanna yrði klár í slaginn í Keflavík á sunnudaginn kemur.
 
Elfar Árni: Mjög þægilegt að spila með Ásgeiri
Elfar Árni Aðalsteinsson, framherji KA, var allt annað en sáttur með úrslit kvöldsins eftir jafntefli við FH í kvöld. ,,Mér fannst við hafa stjórn á leiknum. Náðum að verjast vel og þeir fengu fá marktækifæri. Við höfðum tækifæri til að pota inn öðru marki og það er því virkilega svekkjandi að missa þetta niður í jafntefli.“

Elfar Árni og Ásgeir spiluðu tveir saman í framlínu KA manna í kvöld og lét Elfar vel af samvinnu þeirra félaga. ,,Það er mjög þægilegt að spila með Ásgeiri. Við erum ólíkar týpur, hann er mikið í að stinga sér inn fyrir vörnina og ég vil fá boltann í fætur og við vegum því hvorn annan svolítið upp og vinnum því vel saman.“

Elfar bætir því við að undirbúningurinn fyrir leikinn gegn Keflavík hefjist strax á morgun. ,,Við svekkjum okkur á jafnteflinu í kvöld og byrjum svo að undirbúa Keflavíkur leikinn á æfingu á morgun. Það er leikur sem við ætlum okkur að vinna.“

Ólafur Kristjánsson: Okkur vantaði gæðin til að koma boltanum fyrir
Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, var ósáttur með leik sinna manna í kvöld og þá sérstaklega fyrri hálfleikinn. ,,Við töluðum um það að koma á fullu inn í leikinn en við lendum undir í návígum. KA kemur í 4-4-2 og við höldum ekki breiddinni og sköpum  ekki yfirtölu á köntunum.“

Hann bætir því svo við að þegar hans menn þó komust í þá stöðu að koma boltanum fyrir þá hafi hreinlega vantað gæðin til að nýta sér stöðuna og koma boltanum inn fyrir vörnina. Ólafur segir sína menn hafa komið með örlítið meiri krafti út í seinni hálfleikinn en slakur varnarleikur í föstu leikatriði komi í bakið á mönnum. Hann bætir því við að ,,við vorum lúsheppnir að Brandur skildi smella honum þarna og færa okkur jöfnunarmarkið. Þó svo að jafntefli sé betra en tap þá er ég bara svekktur með okkar frammistöðu í kvöld.“

FH hafa átt í vandræðum með að verjast föstum leikatriðum í sumar og segir Ólafur menn einfaldlega verða litlir þegar kemur að því að verjast horni eða aukaspyrnu. ,,Það kemur einn bolti inn á teiginn og þetta er spurning um það að ráðast á boltann og það er yfirleitt þannig að þeir sem eru fyrstir á boltann þeir vinna hann.“ Ólafur bætir svo við að það vanti einfaldlega ákafa og grimmd í hans menn í að ráðast á boltann í þessum stöðum.

Brandur Olsen hefur reynst FH vel í sumar og segir Ólafur mjög gott að hafa hann í sínu liði. ,,Það er mjög fínt að hafa hann, ekki út af því að hann skoraði jöfnunarmarkið, heldur af því að hann er góður leikmaður.“ Hann bætir því við að það er gott að hafa mjög marga í FH liðinu ,,en við sem lið þurfum að sýna betri frammistöðu það sem eftir er móts,“ bætir Ólafur við að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.