Erlent

Sprengjum rignir yfir landamæri Ísrael og Gasa

Samúel Karl Ólason skrifar
Ísraelsmaður fluttur á sjúkrahús.
Ísraelsmaður fluttur á sjúkrahús. Vísir/AP

Eldflaugum var skotið frá Gasaströndinni á Ísrael í dag og Ísraelar gerðu loftárásir á Gasa, þrátt fyrir að báðar fylkingar hafi rætt um árangur í vopnahlésviðræðum síðustu daga. Spenna er mikil á svæðinu og óttast er að fjórða stríðið á Gasa á einungis tíu árum gæti blossað upp. Síðustu mánuði hafa fjölmargar árásir verið gerðar sitthvoru megin við landamærin og hafa báðar fylkingar hótað stríði.

Í samtölum við Reuters sögðu bæði háttsettur meðlimur Hamas, sem stjórnar Gasa, og ísraelskur þingmaður að viðræðurnar, sem Sameinuðu þjóðirnar og Egyptar koma að, væru langt komnar.

Ísraelski herinn gaf í dag út að von væri á hefndarárásum eftir að herinn felldi tvo meðlimi Hamas í gær. Þeir dóu þegar skriðdreki var notaður til að skjóta á æfingu Hamas-liða sem hermenn töldu að væri árás.

Hamas hét hefndum og herinn sagðist svo hafa séð Hamas-liða yfirgefa nokkrar staðsetningar í aðdraganda árásanna í dag. Það væri undanfari fleiri árása. Hamas-liðar hefðu skutu svo á bíl verktaka og herinn segir að þeirri skothríð hafi verið svarað með skoti úr skriðdreka. Síðan hafi 36 eldflaugum verið skotið að Ísrael og að flugherinn hafi svarað því með loftárásum á minnst tólf skotmörk.

Herinn segir að minnst 70 eldflaugum hafi verið skotið að Ísrael yfir daginn. Minnst ellefu þeirra voru skotnar niður en flestar lentu á opnum svæðum án þess að valda tjóni. Nokkrir eru sagðir hafa særst í Ísrael og sex í Palestínu. Ekki er vitað til þess að nokkur hafi fallið.

Samkvæmt Times of Israel fundaði Benjamin Netanyahu, forsætisráðherraÍsrael, með ríkisstjórn sinni í kvöld í höfuðstöðvum hersins í kvöld.

Íbúum suðurhluta Ísrael hefur verið sagt að halda sér heima fyrir en slökkviliðsmenn hafa slökkt minnst ellefu elda sem kviknuðu út frá íkveikjutækjum sem Hamas-liðar senda til Ísrael með blöðrum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.