Íslenski boltinn

Byrjað að leggja gervigrasið í Lautinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Teppið mætt.
Teppið mætt. mynd/fylkir
Fylkir spilar líklega loksins aftur Pepsi-deildarleik á Flórídína-vellinum í Árbænum á mánudagskvöldið þegar að liðið tekur á móti Íslandsmeisturum Vals í 14. umferð deildarinnar.

Það verður þá vígsluleikur nýja gervigrassins sem verið er að leggja á Fylkisvöllinn en Árbæingar byrjuðu að leggja gervigrasið í morgun. Það er lokastig framkvæmda sem hafa nú staðið yfir í nokkra mánuði.

Í viðtali við mbl.is í dag segir Hörður Guðjónsson, framkvæmdastjóri Fylkis, að stefnt sé á að spila leikinn á mánudaginn í Lautinni.

Fylkir hóf mótið inn í Egilshöllinni og spilaði fimm heimaleiki þar innandyra. Liðið vann fyrstu þrjá leikina en tapaði tveimur síðustu fyrir Víkingi og KR.

Árbæjarfélagið tók ákvörðun á síðasta ári um að leggja gervigras á völlinn í samstarfi við Reykjavíkurborg en framkvæmdir hafa dregist á langinn sem varð til þess að Fylkir spilaði fram undir lok júlí inn í Egilshöllinni.

Nú snýr Pepsi-deildin aftur á Fylkisvöll þar sem að spilað var árlega frá 2000-2016 á sautján ára samfelldri veru Fylkis í efstu deild. Allir leikir fóru þá fram á grasi.

Karlalið Fylkis spilaði síðast leik í Pepsi-deildinni á Flórídanavellinum 25. september 2016 þegar að liðið gerði 2-2 jafntefi við Þrótt en með þeim úrslitum svo gott sem féll Fylkir úr deildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×