Erlent

Ætlaði ekki að nauðga konunni heldur stunda með henni „utanklæðakynlíf“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brock Turner.
Brock Turner. Vísir/Getty
Lögmaður Brocks Turners, sem dæmdur var í sex mánaða fangelsi árið 2016 fyrir að nauðga meðvitundarlausri konu á bak við ruslagám á skólalóð Stanford-háskóla í janúar árið 2015, segir Turner ekki hafa ætlað að nauðga konunni þar eð „kynlífið“ sem hann stundaði með henni hafi ekki verið í gegnum leggöng hennar.

Turner afplánaði helming dómsins, eða þrjá mánuði, fyrir nauðgunina. Hann var m.a. dæmdur fyrir að stinga aðskotahlut upp í leggöng meðvitundarlausrar konu í kynferðislegum tilgangi.

Lögmenn Turners áfrýjuðu dómnum seint á síðasta ári. Við réttarhöld í Kaliforníu í gær fór lögmaður hans fram á að dómnum yrði snúið við. Færði lögmaðurinn rök fyrir því að ekki hefðu fengist nægar sannanir fyrir sakfellingu Turners á sínum tíma, að því er fram kemur í umfjöllun héraðsmiðilsins Paolo Alto Online.

„Utanklæðakynlíf“ án ásetnings 

Lögmaðurinn bar fyrir sig hugtakinu „utanklæðakynlíf“, eða „outercourse“ upp á ensku, og skilgreindi það sem „tegund kynlífs“ þar sem ekki væri um að ræða „getnaðarlim inn í leggöng“. Þá væru báðir aðilar jafnframt fullklæddir á meðan á því stæði. Þetta utanklæðakynlíf átti Turner að hafa stundað með konunni fyrir aftan ruslagáminn og ásetningur til nauðgunar þannig ekki verið til staðar.

Sjá einnig: Sex mánaða nauðgunardómur vekur reiði: „Vegna þín fannst mér ég einskis virði“

Þá sagði lögmaðurinn að kviðdómurinn sem kvað upp dóminn yfir Turner hefði stuðst við vangaveltur og „fyllt í eyðurnar“ er ákvörðun um sakfellingu var tekin. Dómarar tóku ekki vel í þessar röksemdafærslur lögmannsins í gær og höfnuðu beiðni hans um að endurmeta sönnunargögn og ákvörðun kviðdóms.

 

Litið til ungs aldurs, bjartrar framtíðar og hreinnar sakaskrár

Mál Turners vakti mikla athygli og reiði í Bandaríkjunum eftir að dómur yfir honum var kveðinn upp árið 2016. Saksóknari fór fram á sex ára fangelsi yfir Turner en hámarksrefsing fyrir glæpinn er 14 ára fangelsi. Dómari taldi hins vegar viðeigandi að dæma Turner í aðeins sex mánaða fangelsi og svo þrjú ár á skilorði þar sem hann taldi að þyngri dómur hefði alvarlegar afleiðingar fyrir Turner. Þá leit dómarinn til þess að sakaskrá Turners var hrein auk þess sem hann var ungur að aldri.

Viðbrögð aðstandenda Turner vöktu einnig athygli á sínum tíma. Faðir Turners sendi til að mynda bréf til dómarans og sagði að það væri ekki viðeigandi refsing að senda son hans í fangelsi fyrir eitthvað sem „aðeins tók tuttugu mínútur.“ Þá virtist Turner sjálfur ekki sjá eftir glæpnum ef marka má yfirlýsingu sem hann sendi frá sér eftir að hann var dæmdur.

Þá afturkölluðu kjósendur í Santa Clara-sýslu í Kaliforníu nýlega umboð dómarans Aarons Persky, sem kvað upp hinn umdeilda dóm yfir Turner.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×