Erlent

Dómarinn í Stanford-nauðgunarmálinu settur af

Kjartan Kjartansson skrifar
Persky hefur sagt að hann myndi fara eins með mál Brock Turner ef það kæmi inn á borð hans í dag þrátt fyrir gagnrýnina sem dómur hans hlaut.
Persky hefur sagt að hann myndi fara eins með mál Brock Turner ef það kæmi inn á borð hans í dag þrátt fyrir gagnrýnina sem dómur hans hlaut. Vísir/AP
Kjósendur í Santa Clara-sýslu í Kaliforníu í Bandaríkjunum afturkölluðu í gær umboð dómara sem kvað upp umdeildan dóm yfir háskólanema sem nauðgaði skólasystur sinni við Stanford-háskóla fyrir tveimur árum.

Aaron Persky dæmdi Brock Turner í sex mánaða fangelsi fyrir þrjú kynferðisbrot. Turner nauðgaði stúlku sem hafði dáið áfengisdauða á bak við ruslagám. Málið vakti mikla athygli í Bandaríkjunum, ekki síst vegna dómsins yfir Turner sem þótti vægur. Saksóknarar höfðu krafist sjö ára fangelsisdóms yfir honum.

Í Kaliforníu er heimild í lögum til afturkalla umboð dómara í kosningum. Þannig var kosið um tillögu um að afturkalla umboð Persky samhliða kosningum í forvali fyrir þingkosningar í gær. Persky varð fyrsti dómarinn til að missa umboð sitt í Kaliforníu með þessum hætti frá árinu 1932, að sögn AP-fréttastofunnar.

Turner var sleppt úr fangelsi fyrir góða hegðun þegar hann hafði afplánað þrjá mánuði af refsingu sinni.

Herferðin fyrir afturköllun umboðs Persky hefur verið umdeild. Persky fylgdi ráðleggingum skilorðsnefndar sýslunnar þegar hann dæmdi Turner og eftirlitsnefnd með dómstólum í Kaliforníu úrskurðaði að hann hafi farið eftir lögum. Saksóknarinn í málinu áfrýjaði niðurstöðunni ekki.

„Sjálfstæði dómstóla er lykilatriði í samfélagi okkar. Hvaða mál sem þú ert með fyrir dómara þá viltu að dómarinn líti á þig og komi fram við þig sem einstakling og hugsi ekki um kosningar, feril sinn eða hvað mun gerast. Áhyggjur mínar af afturkölluninni eru að dómarar muni hugsa sig um hvernig þetta eigi eftir að falla í kramið hjá almenningi,“ segir Jeff Rosen, saksóknari í Santa Clara-sýslu, við Vice.

Í myndbandinu hér fyrir neðan má sjá umfjöllun Vice um herferðina til að afturkalla umboð Persky í Santa Clara-sýslu.


Tengdar fréttir

Stanford-nauðgarinn: „Ég gerði mistök, ég drakk of mikið“

Brock Turner, sem dæmdur var í sex mánaða fangelsi í liðinni viku fyrir að nauðga meðvitundarlausri konu á bak við ruslagám á skólalóð Stanford-háskóla í janúar í fyrra, virðist að litlu sem engu leyti taka ábyrgð á gjörðum sínum umrædda nótt.

Stanford-nauðgarinn losnar úr fangelsi á morgun

Brock Turner fyrrverandi nemandi Stanford-háskóla sem sakfelldur var fyrr á árinu fyrir að nauðga skólasystur sinni, losnar úr fangelsi á morgun eftir að hafa afplánað þrjá mánuði af sex mánaða dómi sem hann fékk þar sem hann hefur hagað sér vel innan veggja fangelsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×