Íslenski boltinn

Hilmar Árni með þremur mörkum fleira en Andri Rúnar á sama tíma í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson fagnar einu af þrettán mörkum sínum í sumar.
Hilmar Árni Halldórsson fagnar einu af þrettán mörkum sínum í sumar. vísir/bára

Enginn þeirra sem eiga markametið í efstu deild karla í fótbolta voru búnir að skora meira en Hilmar Árni Halldórsson eftir tólf spilaða leiki og þrír af þeim skoruðu færri mörk í fyrstu tólf leikjum sínum.

Stjörnumaðurinn Hilmar Árni Halldórsson hefur skorað 13 mörk í fyrstu 12 leikjum sínum í Pepsi-deild karla og vantar því „bara“ sex mörk til viðbótar til að jafna markametið.

Andri Rúnar Bjarnason jafnaði markametið í fyrra þegar hann skoraði 19 mörk í 22 leikjum með Grindavík. Þá hafði enginn skorað svona mörk í 20 ár eða síðan að Tryggvi Guðmundsson skoraði 19 mörk fyrir ÍBV sumarið 1997.

Hilmar Árni er búinn að skora þremur mörkum meira í sumar en Andri Rúnar var búinn að skora á sama tíma í fyrra. Það er því ekkert skrýtið að menn fari að velta fyrir sér möguleikum Hilmars á að bæta eða slá metið.

Hilmar Árni var á undan öllum fimm í tíu mörkin og hann skoraði einnig meira en þeir í fyrstu sex leikjunum.

Hilmar Árni er nú með 13 mörk í fyrstu 12 leikjunum eða jafnmörg mörk og þeir Pétur Pétursson og Guðmundur Torfason gerðu þegar þeir settu (Pétur 1978) og jöfnuðu (Guðmundur 1986) markametið.

Málið er bara að Hilmar Árni á eftir mögulega að spila tíu leiki en Pétur átti þá „bara“ fimm leiki eftir og Guðmundur sex.

Hilmar Árni er aftur á móti á undan þeim Þórði Guðjónssyni (11 mörk) og Andra Rúnari Bjarnasyni (10 mörk) og þá er hann langt á undan Tryggva Guðmundssyni sem skoraði  „bara“ 8 mörk í fyrstu 12 leikjum sínum sumarið 1997.

Hér fyrir neðan má sjá samanburð á markaskori Hilmars Árna og markametshafanna fimm eftir sex, níu og tólf leiki.

Samanburður á Hilmari Árna og markametsmönnunum fjórum:

... Eftir 12 spilaða leiki
Pétur Pétursson, 1978 - 13 mörk
Guðmundur Torfason, 1986 - 13 mörk
Hilmar Árni Halldórsson, 2018 - 13 mörk
Þórður Guðjónsson, 1993 - 11 mörk
Andri Rúnar Bjarnason, 2017 - 10 mörk
Tryggvi Guðmundsson, 1997 - 8 mörk

... Eftir 9 spilaða  leiki
Hilmar Árni Halldórsson, 2018 - 10 mörk
Guðmundur Torfason, 1986 - 9 mörk
Andri Rúnar Bjarnason, 2017 - 9 mörk
Pétur Pétursson, 1978 - 7 mörk
Þórður Guðjónsson, 1993 - 6 mörk
Tryggvi Guðmundsson, 1997 - 6 mörk

... Eftir 6 spilaða  leiki
Hilmar Árni Halldórsson, 2018 - 7 mörk
Guðmundur Torfason, 1986 - 6 mörk
Andri Rúnar Bjarnason, 2017 - 6 mörk
Þórður Guðjónsson, 1993 - 5 mörk
Tryggvi Guðmundsson, 1997 - 5 mörk
Pétur Pétursson, 1978 - 4 mörkAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.