Erlent

„Ég vil bara faðma hann“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Björgunaraðilar ferja fyrstu tvo drengina sem bjargað var úr hellinum um borð í þyrlu.
Björgunaraðilar ferja fyrstu tvo drengina sem bjargað var úr hellinum um borð í þyrlu. Vísir/EPA

Faðir eins þeirra drengja sem fastir voru í hellinum í Taílandi segir að hann bíði eftir að fá að faðma son sinn og segja honum hvað hann sé hamingusamur að sonurinn hafi komist út heill á húfi. Faðirinn beið fyrir utan hellinn á meðan björgunaraðgerðir stóðu yfir.

Adisak Wongsukchan er faðir hins fjórtán ára gamla Akarat Wongsukchan sem dvaldi í hellinum í sautján daga og var meðal þeirra sem komu út úr hellinum í fyrradag. Hann var fluttur rakleiðis á sjúkrahús þar sem hann bíður nú eftir leyfi til þess að hitta foreldra sína.

Adisak dvaldi sem fyrr segir við hellinn ásamt öðrum foreldrum þar sem þeir biðu eftir fregnum. Í viðtali við CNN segist hann hafa haft miklar áhyggjur af því hvort að það tækist að bjarga strákunum, hvernig honum myndi líða í myrkrinu og hvort þeir hefðu vatn og mat til þess að næra sig.

Þessar áhyggjur þurrkuðust þó út þegar syni hans og þeim sem eftir voru í hellinum var bjargað út, heilum á húfi. Er hópurinn allur í ágætu ásigkomulagi miðað við að hafa dvalið í helli allan þann tíma. Er þjálfaranum meðal annars þakkað fyrir hversu vel drengirnir eru á sig komnir.

Varð eftir með foreldrum þeirra sem enn biðu

Í samtali við CNN segist Adisak vera gríðarlega þakklátur fyrir þá alþjóðlegu björgunaraðgerð sem farið var í til þess að finna og bjarga drengjunum. Þakkar hann taílenska konungnum og ríkisstjórninni fyrir hversu fljótt var gripið til aðgerða.

„Ég vil bara faðma hann og segja honum hvað ég sé hamingjusamur,“ sagði Adisak sem beið við hellinn ásamt foreldrum þeirra drengja sem bjargað var út í gær, þrátt fyrir að sonur hans væri þegar kominn út.

„Ég lofaði hinum foreldrunum að við myndum bíða og fara saman frá hellinum. Ég ætlaði ekki að skilja þau eftir, við vorum í þessu saman,“ sagði Adisak.

Þegar síðustu drengjunum og þjálfaranum var bjargað út hélt Adisak á spítalann í von um að sjá son sinn. Áður en hann yfirgaf svæðið þakkaði hann öllum þeim sem urðu á vegi hans og tóku þátt í björgunaraðgerðinni.

Bíður hann nú eftir að læknar gefi grænt ljós á að hann fái að hitta son sinn.

„Ég vil bara faðma hann og segja honum hvað ég er hamingjusamur.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.