Scott Mann, þingmaður Íhaldsflokksins, sagði af sér í dag vegna „útþynntrar útgáfu af Brexit“. Þetta gerir hann að níunda íhaldsmanninum sem lætur af störfum vegna Brexit-mála undir stjórn Theresu May, forsætisráðherra Breta. Í síðustu viku sögðu af sér tveir þungavigtarmenn í ríkisstjórn May, þeir Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra, og David Davis, fyrrverandi ráðherra útgöngumála.
Mann segir af sér til að láta í ljós óánægju sína með hið svokallaða „mjúka“ Brexit. Í tilkynningu sem hann sendi frá sér segist hann ekki geta slegið af þeim kröfum kjósendur gerðu til hans varðandi útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram á Sky News.
„Ég er ekki til í að tefla í tvísýnu vilja þeirra til þess eins að ná fram útþynntri útgáfu af Brexit“
Það hafi verið skýr niðurstaða kosninganna fyrir tveimur árum að kjósendur vilji að Bretar stjórni sjálfir fiskveiði-og landbúnaðarstefnu landsins, lögum og landamærum.
Kallar eftir því að kosið verði á ný
Vísir sagði frá því í dag að Justine Greening, fyrrverandi menntamálaráherra Bretlands í ríkisstjórn Theresu May, kalli eftir því að kosið verði aftur um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þessari skoðun sinni kom hún á framfæri í Times í dag.
May útilokar þjóðaratkvæðagreiðslu
Theresa May, forsætisráðherra, ávarpaði í kjölfarið tillögu Greening. Hún sagði að það yrði ekki undir neinum kringumstæðum blásið til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Brexit-samningar undir hennar handleiðslu séu hinir einu réttu fyrir þjóðina.
Enn einn íhaldsmaðurinn segir af sér vegna „útþynntrar útgáfu af Brexit“
Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
