Erlent

Björgunarmenn segjast í stríði við tímann og vatnið

Kjartan Kjartansson skrifar
Eina leiðin til að komast að drengjunum er með því að kafa í gegnum hellakerfið hættulega leið.
Eina leiðin til að komast að drengjunum er með því að kafa í gegnum hellakerfið hættulega leið. Vísir/EPA
Kafarar sem undirbúa björgun drengjanna sem sitja fastir í neðanjarðarhelli í Taílandi segja næstu daga besta tímann til að reyna að ná þeim út áður en meira rignir á svæðinu. Björgunarmenn segjast í kappi við „vatn og tíma“.

Narongsak Osottanakorn, yfirmaður björgunaraðgerðanna, sagði fréttamönnum í dag að næstu þrír til fjórir dagar væru heppilegasti tíminn til að reyna að bjarga drengjunum og þjálfara þeirra sem hafa hýrst í hellinum í tvær vikur. Flóð af völdum úrhellisrigninga festi þá inni í hellakerfinu.

„Núverandi aðstæður, varðandi stöðu lofts og vatns og heilsu drengjanna, er sú besta til þessa. Við erum í enn í kapphlaupi við vatn og tíma,“ hefur Reuters eftir Ossotanakorn.

Reynt hefur verið að kenna drengjunum að kafa en eina leiðin út er sérstaklega erfið og aðeins á færi reyndustu kafara. Taílenskur kafari sem vann við undirbúning björgunaraðgerða drukknaði í lok vikunnar. Þá hafa drengirnir verið taldir of veikburða fram að þessu til að láta þá reyna að kafa út.

Á sama tíma hefur verið reynt að dæla vatni upp úr hellunum og er vatnshæðin í þeim sögð hafa lækkað nokkuð. Þá hefur verið reynt að bora holur niður í hellinn þar sem drengirnar eru en án árangurs fram að þessu.

Erlend ríki eins og Ástralía, Bretland, Kína Japan, og Bandaríkin hafa lagt aðgerðunum lið. Sendiherra Ísraels heimsótti staðinn í gær til að kynna sér aðstæður og kanna hvaða aðstoð þarlend stjórnvöld gætu veitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×