Íslenski boltinn

Spilar Kári Árna fyrsta leikinn sinn í kvöld og það á erfiðasta velli Pepsi-deildarinnar?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kári Árnason á HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu.
Kári Árnason á HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty

Lokaleikur tólftu umferðar Pepsi-deildar karla í fótbolta fer fram í Egilshöllinni í kvöld þegar Fylkismenn taka á móti Víkingum.

Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður líka sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Víkingar unnu KR-inga í síðasta leik sínum, unnu Fylkismenn í fyrstu umferð og gætu teflt fram HM-leikmanni í kvöld.

Kári Árnason er kominn aftur til Víkinga eftir HM í Rússlandi með íslenska landsliðinu og hann gæti spilað sinn fyrsta leik í kvöld. Hann er búinn að fá ágæta hvíld eftir HM og er með leikheimild.

Verkefni kvöldsins er gríðarlega mikilvægur leikur í barátunni í neðri hluta deildarinnar. Víkingar eru með 12 stig í 9. sæti en Fylkismenn eru með aðeins einu stigi minna.

Fylkismenn sitja samt í fallsæti deildarinnar en það breytir ekki því að í dag eru þeir tölfræðilega með besta heimavöll Pepsi-deildinnar. (Hér má sjá árangur liðanna á heimavelli í sumar)

Fylkisliðið hefur unnið alla þrjá leiki sína í Egilshöllinni í sumar en þeir spila þar vegna framkvæmda við Fylkisvöllinn. Þeir unnu þar 2-1 sigur á KA, 2-1 sigur á ÍBV og 2-0 sigur á Keflavík. Þrír leikir, níu stig og +4 í markatölu (6-2).

Vandamál Fylkismanna er að í hinum sjö deildarleikjum liðsins hefur liðið aðeins fengið 2 stig af 21 mögulegu og markatalan er -8 (5-13).  

Fylkisliðið er þannig búið að skora fleiri mörk í þremur leikjum sínum í Egilshöllinni (6) heldur en í sjö leikjum sínum á öðrum völlum (5).Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.