Erlent

Hratt landris gæti vegið upp á móti hruni suðurskautsíss

Kjartan Kjartansson skrifar
Vísindamenn hafa óttast að óstöðvandi hrun íssins á Vestur-Suðurskautslandinu gæti farið af stað vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna.
Vísindamenn hafa óttast að óstöðvandi hrun íssins á Vestur-Suðurskautslandinu gæti farið af stað vegna hnattrænnar hlýnunar af völdum manna. Vísir/Getty
Land rís óvenjuhratt á vesturhluta Suðurskautslandsins þegar léttir á fargi á því íshellan þar bráðnar og þynnist. Vísindamenn telja að hratt landrisið geti mögulega hægt á hruni íshellunnar út í hafið. Ísinn á Suðurskautslandinu leikur lykilhlutverk í sjávarstöðu við strendur Íslands.

Hnattræn hlýnun gengur nú hratt á Vestur-Suðurskautslandið. Nýleg rannsókn leiddi í ljós að hraði ístapsins þar hefur þrefaldast á síðustu tíu árunum. Hrynji íshellan á vesturhluta Suðurskautslandsins öll myndi það hækka sjávarstöðu um þrjá metra að meðaltali á jörðinni.

Þrátt fyrir að Grænlandsjökull, sem bráðnar einnig hratt, standi Íslendingum landfræðilega næst er það ísinn á Suðurskautslandinu sem getur haft mest áhrif á sjávarstöðuna hér við land. Ástæðan er sú að íshellan yfir Grænlandi er svo massamikil að þegar hún skreppur saman dregur úr þyngdartogi í kringum hana og sjávarstaðan lækkar í næsta nágrenninu.

Þannig er því spáð að sjávarstaðan við Ísland hækki mun minna en hnattrænt meðaltal á þessari öld, jafnvel aðeins um 30%, í skýrslu vísindanefndar um áhrif loftslagsbreytinga sem kom út í vor.

Í skýrslunni var hins vegar varað við því að mikil óvissa um afdrif íshellunnar á Vestur-Suðurskautslandinu þýddi að hækkunin við Ísland gæti orðið allt að tvöfalt meiri ef allt færi á versta veg. Þrátt fyrir að sjávarstöðuhækkunin verði minni en meðaltalið verða áhrifin veruleg við Ísland. Til lengri tíma litið má einnig búast við nokkurra metra hækkun sjávarstöðu takist mönnum ekki að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og takmarka áhrif loftslagsbreytinga.

Því hafa niðurstöður nýrrar rannsóknar vísindamanna á landrisi á Vestur-Suðurskautslandinu töluverða þýðingu fyrir þróun sjávarstöðu við Ísland.

Rís rúmlega þriðjungi hraðar en hálendi Íslands

Þekkt er að á Íslandi hefur bráðnun jökla valdið landrisi, ekki síst á hálendinu. Áætlað er að landið rísi þar nú um þrjátíu millímetra á ári. Risið veldur því að vísindamenn spá því að sjávarstaðan gæti jafnvel lækkað við suðausturströnd landsins þar sem jöklarnir standa næst sjónum á þessari öld.

Á Suðurskautslandinu á sama þróun sér stað og enn hraðar. Landið undir íshellunni á Vestur-Suðurskautslandinu er nú talið rísa um 41 millímetra á ári, um 36% hraðar en hálendi Íslands. Valentina Barletta frá Tækniháskólanum í Danmörku, segir við Washington Post að landrisið vegna hops jöklanna sé mun meira en búist var við.

Hún og félagar hennar mældu landrisið með neti GPS-mælistöðva á bergmyndunum á Vestur-Suðurskautslandinu. Grein um niðurstöður þeirra birtist í vísindaritinu Science.

Neðansjávarbráðnun af völdum hlýs sjávar hefur verið aðalorsök bráðnunar jökla á Suðurskautslandinu. Gríðarlegir ísjakar hafa brotað úr íshellunni þar undanfarin ár.Vísir/AFP

Lyftir ísnum upp úr sjónum og hægir á hopi

Landrisið getur vegið upp á móti hruni íshellunnar á þrennan hátt. Í fyrsta lagi hækkar það ísinn sem eftir er og minnkar þannig snertingu hans við sjóinn. Minni hætta er þá að ísinn brotni og fljóti burt. Í öðru lagi getur það hægt á hopi íssins að sjávarbotninn hækki og veiti ísnum frekari mótstöðu. Í þriðja lagi telja vísindamennirnir að þegar undanhalli hafbotnsins minnkar geti hægt á hopi íssins.

Washington Post segir þó óvíst hversu mikið landrisið megnar að vega upp á móti hruni íssins. Hröð bráðnun íssins kemur til af því að hlýr sjór kemst undir hann og bræðir neðan frá. Jöklarnir standa í sjó sem er hundruð metra og jafnvel kílómetra djúpur. Því er óvíst að hækkun lands um nokkra sentímetra geti híft þá upp úr sjónum sem bræðir þá eins síns liðs.

Þá gæti sú staðreynd að landið rís hraðar á Vestur-Suðurskautslandinu en gert var ráð fyrir þýtt að vísindamenn hafi vanmetið massatap íssins þar. Vísindamennirnir sem stóðu að rannsókninni á landrisinu nú reiknuðu út að niðurstöður þeirra þýddu að massatapið hafi verið 10% meira en gervihnattamælingar hafa bent til.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×