Erlent

Telur líklegt að Trump geti náðað sjálfan sig

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rudy Guiliani fer fyrir lögfræðiteymi Bandaríkjaforseta.
Rudy Guiliani fer fyrir lögfræðiteymi Bandaríkjaforseta. Vísir/AFP
Rudy Guilani, yfirmaður lögfræðiteymis Donald Trump Bandaríkjaforseta, telur líklegt að forsetinn hafi vald til þess að náða sjálfan sig fari rannsókn Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, á versta veg. Guilani segir þó að Trump hafi ekki í hyggju að náða sjálfan sig. BBC greinir frá.



Mueller fer sem kunnugt er fyrir rannsókn á meintum afskiptum Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum og meðal þess sem hann rannsakar eru möguleg tengsl framboðs Trump við Rússa. Hefur teymi Mueller viljað ná tali af Trump vegna rannsóknarinnar en enn ekki orðið af því.

Í bréfi sem bandaríska dagblaðið New York Times hefur birt og var skrifað af lögfræðingum Trump til Mueller er því haldið fram að ekki sé hægt að knýja forsetann til að mæta í viðtal við saksóknarann. Forsetinn hafi fullkomin yfirráð yfir bandarískri stjórnsýslu, þar á meðal rannsóknum eins og þeirri sem Muller stýrir.

Guiliani hefur verið tíður gestur í spjall- og fréttaþáttum eftir að hann var skipaður í lögfræðiteymi Trump og var hann mættur í þáttinn This Week á ABC til þess að ræða bréfið sem var sent til Mueller. Var hann þar spurður hvort að lögfræðiteymið liti svo á að hann hefði vald til þes að náða sjálfan sig.

Sagði Guiliani að líklega væri það svo en bætti við að Trump hefði ekki hug á slíku, enda gæti það reynst honum erfitt.

„Pólitískar afleiðingar af því yrðu miklar. Að náða einhvern annan er einn hlutur, en að náða sjálfan sig. Það er allt annað,“ sagði Guiliani.

Alls óvíst er hvort að forseti Bandaríkjanna hafi vald til þess að náða sjálfan sig en engin fordæmi eru fyrir slíku.


Tengdar fréttir

Erfiðleikar hjá Rudy Giuliani

Trump svaraði fyrir ummæli Rudys Giuliani, nýs lögfræðings síns, um Stormy Daniels-málið. Sagði Giuliani frábæran en minnti á að hann væri nýr í starfi.

Birtu 20 síðna leynilegt bréf

Bandaríska dagblaðið New York Times hafa birt bréf sem lögmenn Donalds Trumps forseta skrifuðu Robert Muller, sérstökum saksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×