Erlent

Kalla erindreka heim vegna gruns um hljóðárásir

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa verið stirð undanfarna mánuði.
Samskipti Kína og Bandaríkjanna hafa verið stirð undanfarna mánuði. Vísir/afp
Bandaríkjastjórn hefur kallað heim fjölda erindreka sinna í Kína vegna gruns um að þeir hafi veikst af sama sjúkdómi og bandarískir sendiráðsstarfsmenn á Kúbu.

Erindrekarnir, sem höfðu haft aðsetur í borginni Guangzhou í suðurhluta Kína, höfðu tilkynnt yfirboðurum sínum að þeir heyrðu undarleg hljóð á starfsstöð sinni.

Greint var frá því undir lok síðasta árs, til dæmis á Vísi, að 24 starfsmenn bandarískra sendiráðsins á Kúbu hafi veikst með dularfullum hætti. Þegar nánar var að gáð hafði fólkið hlotið áverka á heila eftir það sem virðist vera einhvers konar hljóðvopn.

Vitni lýsa hljóðvopninu dularfulla á mjög sérstakan hátt. Einn erindreki segist hafa vaknað við mikil læti í rúmi sínu og þau hafi hætt um leið og hann gekk frá rúminu. Um leið og hann lagðist aftur niður heyrði hann hljóðið aftur og sagðist hann hafa þjáðst verulega.

Sjá einnig: Íhuga að loka sendiráðinu á Kúbu vegna dularfulls hljóðvopns

Síðan þá hefur hann átt erfitt með heyrn og átt erfitt með að tala eðlilega. Þá hafa önnur fórnarlömb lýst því að þau eigi erfitt með að einbeita sér og að muna tiltekin orð.

Kínversku tilfellin koma fram á mjög eldfimum tímapunkti í samskiptum ríkjanna. Ásakanir hafa gengið á milli Peking og Washington og óttast greinendur að allsherjar viðskiptastríð kunni að skella á milli stórveldanna, með tilheyrandi áhrifum á efnahagsmál heimsins.

Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna varaði starfsfólk sitt við í síðasta mánuði eftir að fregnir tóku að berast af veikindum erindrekanna í Kína. Í tilkynningu sagðist ráðuneytið taka ábendingunum alvarlega en að ekki lægi fyrir hvað byggi að baki þeim. Engu að síður var starfsfólk ráðuneytisins hvatt til að koma sér í skjól ef það yrði vart við hljóðræn óþægindi.

Utanríkisráðuneytið hefur sent rannsóknarnefnd á vettvang sem komast á til botns í því hvort að um sé að ræða sambærilegt mál og kom upp á Kúbu. Stjórnvöld í Havana hafa þvertekið fyrir það að hafa komið nálægt hinum meintu hljóðárásum.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.