Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - Breiðablik 2-1 │ Tók Ólaf Karl þrjár mínútur að tryggja Val sigur

Magnús Ellert Bjarnason á Origovellinum skrifar
Ólafur Karl tryggði Val sigurinn í kvöld.
Ólafur Karl tryggði Val sigurinn í kvöld. vísir/skjáskot
Valur vann gríðarlega mikilvægan sigur á toppliði Breiðabliks í kvöld í 6. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Urðu lokatölur 2-1 á Origo- vellinum í leik sem var frábær skemmtun, þá sérstaklega í síðari hálfleik.

 

Gestirnir úr Kópavogi voru langtum sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og komust þeir verðskuldað yfir á 13. mínútu þegar að Aron Bjarnason skoraði með góðu vinstrifótar skoti úr teignum. Varnarmenn Vals voru sofandi á verðinum en þeir gáfu Aroni alltof mikinn tíma til að athafna sig. 

 

Staðan var 1-0, Blikum í vil, þegar að liðin gengju til búningsherbergja. Staðan hefði þó getað verið önnur en tvö mörk voru dæmd af Val í fyrri hálfleik, bæði vegna rangstöðu. Það fyrra, sem Patrick Pedersen skoraði var ranglega dæmt af, en í endursýningu sást berlega að daninn var réttstæður. Ekki sást nægilega vel hvort Haukur Páll var rangstæður þegar hann skoraði nokkrum mínútum seinna, en tæpt var það, svo er víst.

 

Seinni hálfleikurinn var líkt og áður sagði stórskemmtilegur og var allt annað að sjá til Valsmanna. Greinilegt að Óli Jó hefur látið vel valin orð falla í klefanum í hálfleik. Blikar féllu full mikið tilbaka og varð það þeim að falli á 62. mínútu þegar að Patrick Pedersen jafnaði metin með glæsilegu skoti, óverjandi fyrir Gunnleif í marki Blika. Að þessu sinni var mark hans ekki dæmt af.

 

Valsmenn héldu áfram að sækja eftir þetta og var augljóst að þeir væru ekki sáttir með stigið. Á 86. mínútu kom Ólafur Karl Finsen inná, í fyrsta skipti í deildinni í sumar, og var hann ekki lengi að setja mark sitt á leikinn. Skoraði sigurmarkið einungis tveim mínútum eftir að hann kom inná og ætlaði allt um koll að keyra á Origo-vellinum.

 

Eftir leikinn er Valur komið með 9 stig, tveim stigum á eftir Breiðablik, sem tróna enn á toppi deldarinnar. Stefnir allt í æsispennandi toppbaráttu í sumar.

 

Af hverju vann Valur?

Þeir gáfust ekki upp og sóttu allt þar til í lok leiksins. Þá skemmir ekki fyrir að eiga mann á bekknum eins og Óla Kalla, sem var hetja leiksins, í sínum fyrsta leik fyrir Val í deildinni í sumar. Að sama skapi voru Blikar of passívir og klaufar fyrir framan markið, líkt og Ágúst Þór, þjálfari þeirra, kom inná í viðtali við Stöð 2 Sport eftir leikinn.

 

Hverjir stóðu upp úr?


Eftir svona innkomu verður einfaldlega að nefna hann Ólaf Karl Finsen. Frábær innkoma og gríðarlega mikilvægt sigurmark hjá þessum litríka karakter. Þá átti Birkir Már sinn besta leik fyrir Val síðan hann kom aftur heim úr atvinnumennskunni, þá sérstaklega í síðari hálfleik þegar hann sótti ítrekað upp hægri kantinn og skapaði usla.

 

Í liði Blika var markaskorarinn Aron Bjarnason öflugur áður en hann var tekinn útaf og bjó hann til nokkur góð færi fyrir liðsfélaga sína. Oliver Sigurjónsson var auk þess tveggja manna maki á miðjunni, vann fjölda tæklinga og barðist vel frá fyrstu mínútu.

 

Hvað gekk illa?

Blikum gekk illa að klára leikinn eins og komið hefur verið inná. Fengu þeir nokkur færi í stöðunni 1-0 til að gera útum leikinn en voru mislagðir fæturnir fyrir framan markið.

 

Hvað gerist næst?


Blikar taka á móti Stjörnunni eftir akkúrat viku í grannaslag. Degi síðar halda Valsmenn í Grafarvoginn þar sem þeir heimsækja Fjölni.

Bjössi Hreiðars: Óli Kalli var geggjaður í kvöld

Sigurbjörn Hreiðarsson, aðstoðarþjálfari Vals, mætti í viðtal í leikslok í stað Ólafs Jóhannessonar, sem gaf ekki kost á sér í viðtal. Óli sagðist einfaldlega ekki nenna því, hann hefði betri hlutum að sinna.

 

Sigurbjörn var að vonum gríðarlega sáttur í leikslok. Mikilvægi sigursins í kvöld var gríðarlegt. Hefði liðið tapað væru þeir verið komnir átta stigum á eftir Breiðablik.

 

„Þetta var geggjað. Við töluðum um það í hálfleik að við hefðum komið tilbaka á móti Blikum í fyrra, og að við gætum það aftur hér í kvöld. Það gekk eftir og þetta var þvílíkt sætt. ”

 

Óli Kalli var hetja Valsmanna í kvöld. Hann hlýtur að fá fleiri tækifæri í næstu leikjum?

 

„Ég efast ekki um það að Óli muni koma til með að spila meira á næstu vikum. Við erum með stóran og góðan hóp og margir sem koma til greina. Óli er núna búinn að spila tvo leiki í sumar, spilaði einnig í bikarnum, og skora tvö mörk, þannig að hann er að standa sig vel. Hann var geggjaður í kvöld, það er ekkert flóknara en það.  

 

Leikurinn í kvöld var síðasti leikur Birkis Más í hægri bakverðinum í einhverjar vikur, enda HM í Rússlandi á næsta leiti. Hvernig hyggjast þjálfarar Vals fylla skarð hans?

 

„Við erum með 20 manna hóp og fullt af mönnum sem geta fyllt í skarð hans. Við sjáum bara hvað setur í þessu. En það var virkilega skemmtilegt að sjá Birki í kvöld. Við fengum að sjá gamla og góða Birki í kvöld. Hann óð upp hægri kantinn í sífellu og annað markið kemur eftir frábæran sprett frá honum. Það verður stórt skarð að fylla, en við finnum leið til þess, ” sagði Sigurbjörn að lokum.

 

Ágúst Þór: Vantaði greddu í okkur

„Við lögðum allt í þennan leik og stóðum okkur bara nokkuð vel heilt yfir fannst mér. Við hefðum átt að loka þessum leik í stöðunni 1-0, fengum nokkur góð færi en vorum klaufar fyrir framan markið,” voru fyrstu viðbrögð Ágúst Þór þjálfara Breiðabliks, í leikslok.

 

Hvað fannst Ágústi helst vanta í leik sinna manna í  kvöld til að úrslitin yrðu önnur?

 

„Við vorum ekki nógu áræðnir fyrir framan markið líkt og ég kom inná. Það vantaði einfaldlega meiri greddu eins og ég vil kalla það til þess að við myndum klára þessi færi.”

 

Blikar heimtuðu víti í seinni hálfleik, í stöðunni 1-1, þegar að Haukur Páll stjakaði við Jonathan Hendrickx, að því er virtist alveg við vítateigslínunni. Hvað fannst Ágústi um það atvik, var það víti að hans mati?

 

„Ég sá þetta ekki almennilega. Línuvörðurinn hlýtur að vera í línu við þetta, en þeir eru reyndar oft ekki í línu. Þeir voru það allavega ekki í síðasta leik þegar að Gísli Eyjólfsson skoraði mark sem ekki var dæmt. Það væri forvitnislegt að sjá þetta aftur. Þetta er allavega ekki alveg að falla með okkur, ” sagði Ágúst að lokum.

Ólafur Karl: Líður eins og ég sé 46 ára

„Hún er mjög góð. Það er aðallega gott samt að fá þessi þrjú stig. Það er það sem skiptir mestu máli," sagði Ólafur Karl Finsen, hetja Valsmanna.

 

Líkt og kom fram að ofan voru þetta fyrstu mínútur Óla í sumar. Hann hlýtur að vera orðinn þreyttur á þessari bekkjarsetu.

 

„Ég er ekkert orðinn pirraður á því að sitjá á bekknum. Ég er vissulega ekkert voðalega voðalega spenntur alltaf á leikdögum en ég læt þetta ekki hafa áhrif á mig.”

„Ég er búinn að vera í veseni með hnéð á mér og er því ekki í jafn góðu leikformi og aðrir. Þannig að ég skil mjög vel þegar að aðrir fá tækifærið frekar en ég.

 

En hvernig er hnéð núna?

„Það er allt í lagi. Mér líður samt eins og ég sé 46 ára þrátt fyrir að ég sé bara 26 ára. Það er ein erfið æfing á viku hjá mér og restin verður að vera hvíld. Það er ekki alveg nógu skemmtilegt.

 

Óli var spurður hvort hann gæti ekki gert kröfu um meiri leiktíma eftir þessa innkomu.

 

„Vonandi fæ ég að spila meira en það sem skiptir mestu máli er að liðinu fari að ganga betur.”

 

Hvernig lýst honum síðan á komandi leiki?

 

„Ég veit það ekki. Ég hef ekkert skoðað leikplanið en það hljóta að vera einhverjir skemmtilegir leikir framundan,“ sagði Óli að lokum og brosti.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.