Erlent

Yfirgnæfandi meirihluti Íra andvígur banni við fóstureyðingum

Samúel Karl Ólason skrifar
Niðurstaðan virðist afgerandi.
Niðurstaðan virðist afgerandi. Vísir/AP
Fyrstu tölur í þjóðaratkvæðagreiðslunni um að fella niður bann gegn fóstureyðingum í Írlandi gefa í skyn að tillagan hafi verið samþykkt af miklum meirihluta Íra í gærkvöldi. Lög vegna fóstureyðinga í Írlandi hafa verið einhver þau ströngustu í Evrópu en útgönguspár í gærkvöldi voru flestar á þá leið að um tveir þriðju íbúa hefðu kosið að fella lögin úr gildi. Fyrstu tölur staðfesta það en talning hófst klukkan átta í morgun, að íslenskum tíma.Talsmaður þeirra sem börðust gegn niðurfellingu laganna, John McGuirk, hefur viðurkennt ósigur. Hann biður meirihlutann þó um að sýna góðvild og virðingu gagnvart fólki sem er ekki sátt við niðurstöðuna.Í yfirlýsingu frá samtökunum „Save the 8th“, sem vísar til áttunda ákvæðis stjórnarskrárinnar sem snýr að fóstureyðingum, segir að niðurstaðan sé einstaklega sorgleg og að samtökin muni berjast áfram gegn breyttum lögum um fóstureyðingar.„Það var rangt að fara í fóstureyðingu í gær og það er enn rangt í dag,“ segir í yfirlýsingunni.Sums staðar var hlutfallið þó mun hærra eins og í einu kjördæmi Dublin, þar sem fyrstu tölur voru á þá leið að 81,2 prósent kjósenda kusu að fella lögin úr gildi gegn 18,8 prósentum sem vildu það ekki. Útgönguspá Irish Times frá því í gærkvöldi benti til þess að 87 prósent fólks á aldrinum 18 til 24 ára vildi fella lögin niður. Í einu kjördæmi vildu 90 prósent kjósenda fella lögin niður eftir fyrstu talningu.Ef Írar hafa í raun kosið með breytingum er búist við því að fóstureyðingar verði gerðar frjálsar fram að 12. viku meðgöngu en með ákveðnum takmörkunum eftir þann tíma.Stjórnarskrárákvæðið umdeilda sem kveður á um bann við fóstureyðingum var tekið upp árið 1983 en síðan þá hafa verið gerðar ýmsar breytingar þar á. Ákvæðinu var til dæmis breytt árið 2013 í frelsisátt þannig að læknar hafa síðan þá getað framkvæmt fóstureyðingar ef líf móðurinnar var í hættu.Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.