Erlent

Fleiri sprengingar í Indónesíu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Skjáskot úr myndbandsupptöku sem sagt er sýna augnablikið þegar mótorhjólamennirnir sprengdu sig í loft upp við lögreglustöðina.
Skjáskot úr myndbandsupptöku sem sagt er sýna augnablikið þegar mótorhjólamennirnir sprengdu sig í loft upp við lögreglustöðina. Guardian
Tveir mótorhjólamenn sprengdu sig í loft upp við höfuðstöðvar lögreglunnar í borginni Surabaya í Indónesíu í morgun. Aðeins sólarhringur er liðinn frá því að þrjár sambærilegar árásir voru gerðar í borginni.

Talið er að minnsta kosti einn hafi látist og 10 særst í árásinni í morgun. Að sögn breska ríkisútvarpsins er þó enn unnið á vettvangi og því líklegt að þessar tölur kunni að breytast eftir því sem líður á daginn.

Hið minnsta 13 létust í árásunum sem framdar voru við þrjár kirkjur í borginni í gærmorgun. Samtökin sem kenna sig við íslamska ríkið lýstu yfir ábyrgð á árásunum sem eru þær mannskæðustu í Indónesíu frá árinu 2005. Óljóst er hvort að árásirnar í morgun tengjast þeim sem framdar voru á sunnudag.

Fjölskyldan sem bar ábyrgð á árásunum sunnudagsins er meðal þeirra þúsunda Indónesa sem flúið hafa Sýrland á síðustu árum. Þar hefur íslamska ríkið barist hatrammlega gegn fjölþjóðlegu liði en hver aðkoma fjölskyldunnar var að þeim átökum er ekki vitað.

Hins vegar óttast indónesísk stjórnvöld að fleiri hryðjuverkamenn kunni að leynast meðal þeirra þúsunda sem snúið hafa aftur til Indónesíu frá Sýrlandi.

Forseti Indónesíu, Joko Widodo, segir að ekkert verið til sparað í baráttunni við hryðjuverkamenn landsins.

Frétt var uppfærð kl. 6:35.


Tengdar fréttir

Ellefu látnir eftir sjálfsmorðsárásir í Indónesíu

Ellefu eru látnir og 41 særðir eftir sprengjuárásir í borginni Surabaya í Indónesíu. Grunur leikur á að þrír árásarmenn hafi sprengt sig í loft upp í þremur kirkjum í borginni í morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×