Erlent

Norður-Kórea segir Japani þvælast fyrir friðarferlinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Megumi Yokota var rænt af norður-kóreskum leyniþjónustumönnum árið 1977. Afdrif hennar eru ennþá ókunn.
Megumi Yokota var rænt af norður-kóreskum leyniþjónustumönnum árið 1977. Afdrif hennar eru ennþá ókunn. Guardian

Norður-Kóresk stjórnvöld segja að rán sín á japönskum ríkisborgurum á Kaldastríðsárunum séu „útkljáð“ og saka Japani um að þvælast fyrir friðarferlinu sem nú stendur yfir á Kóreuskaganum.

Í frétt ríkissjónvarps Norður-Kóreu, KCNA, í gærkvöld voru japönsk stjórnvöld harðlega gagnrýnd vegna þeirrar afstöðu sinnar að taka ekki upp stjórnmálasamband við Pjongjang fyrr en búið væri að komast til botns í hið minnsta 12 mannránum sem framin voru á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

„Japönsku afturhaldsseggirnir blóðmjólka nú „mannránsmálið“ sem hefur nú þegar við útkljáð,“ er haft eftir KCNA á vef Guardian. „Þetta er bara illkvittin og heimskuleg aðferð til að stöðva friðaraferlið á Kóreuskaganum, þrátt fyrir að því hafi verið hampað af gjörvöllu alþjóðasamfélaginu,“ sagði KCNA áður en það bætti við að japönsk stjórnvöld væru þau einu sem syntu gegn straumi alþjóðastjórnmálanna.

Stjórnvöld í Pjongjang slepptu fimm japönskum ríkisborgurum, sem rænt var til að þeir gætu frætt norður-kóresku leyniþjónustuna um Japan, árið 2002. Þau halda því jafnframt fram að átta japanskir fangar hafi dáið í norður-kóreskum fangelsum og segjast ekkert kannast við hina fjóra sem Japanar segja að finnist enn í landinu.

Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, segir að þó svo að Bandaríkin og Suður-Kórea komist að samkomulagi við Norður-Kóreu muni stjórnvöld í Tókíó ekki endurvekja stjórnmálasamband sitt við Pjongjang fyrr en mannránsmálin hafa verið leidd til lykta. Að sama skapi munu engum japönskum fjármunum verða varið til uppbyggingar í Norður-Kóreu fyrr en ásættanleg svör berast frá Kim Jong-un og embættismönnum hans.


Tengdar fréttir



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.