Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Valur - KR 2-1 | Tobias hetjan eftir lygilegar lokamínútur

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Valsmenn tryggðu sér ótrúlegan sigur á KR í kvöld
Valsmenn tryggðu sér ótrúlegan sigur á KR í kvöld vísir/daníel

Íslandsmeistarar Vals byrjuðu nýtt mót í Pepsi deild karla eins vel og hægt var með sigurmarki á loka mínútunum gegn erkifjendunum í KR. Eftir bragðdaufan leik var heldur betur dramatík í lokin með tveimur mörkum í uppbótartíma.

Dion Acoff kom Val yfir á 69. mínútu eftir magnaða stungusendingu Hauks Páls Sigurðssonar inn á Patrick Pedersen. Daninn fann svo Acoff í teignum þar sem hann setti boltann í autt markið eftir að Beitir Ólafsson hafði farið út til að mæta Pedersen.

Valur virtist ætla að sigla heim seiglu sigri eftir leik sem var ekki mikið fyrir augað í fyrri hálfleik, hvorugt lið átti nein afgerandi dauðafæri en fengu bæði sín tækifæri til þess að skora. Pálmi Rafn Pálmason jafnaði metin fyrir KR í uppbótartíma eftir stoðsendingu Kennie Chopart og KR-ingar fögnuðu vel fengnu stigi.

Heimamenn í Val voru hins vegar snöggir að binda enda á allan fögnuð KR því Tobias Thomsen, maðurinn sem fór frá KR yfir í Val í vetur, skoraði eftir fyrirgjöf Einars Karls Ingvarssonar og allt ætlaði um koll að keyra.

Fleiri urðu atvikin í leiknum ekki, 2-1 sigur Valsmanna staðreynd sem byrja Íslandsmótið á frábærri dramatík.

Afhverju vann Valur? 
Á heppni sem einkennir oft meistaralið. Valsmenn voru með yfirhöndina mest allan leikinn, KR-ingar áttu sína spretti og jafntefli hefði líklegast verið ásættanlegt fyrir bæði lið en bestu liðin klára þessa baráttu-jafnteflisleiki.

Hverjir stóðu upp úr?
Fyrirliðinn Haukur Páll Sigurðsson fær mitt atkvæði sem maður leiksins. Sendinginn inn á Pedersen bjó til opnunarmarkið og hann barðist af öllu sínu afli allan leikinn eins og svo oft áður. Annars var Kristinn Freyr Sigurðsson ágætur í fyrri hálfleik og Valsmenn voru í heildina nokkuð jafnir sem lið.Hjá KR voru það helst miðjumennirnir sem stóðu upp úr, Pálmi Rafn og Skúli Jón Friðgeirsson. Einkunnir allra leikmanna má sjá undir flipanum „Liðin“ hér að ofan.

Hvað gekk illa?
Hvorugu liðinu gekk neitt sérstaklega vel að skapa sér opin marktækifæri. Það voru skot á markið og nokkrum sinnum hefði getað komið mark, en það var frekar lítið um fína drætti í sóknarleiknum.

Hvað gerist næst?
Mjólkurbikarinn er næstur á dagskrá hjá báðum liðum. Valsmenn mæta Keflavík hér á Hlíðarenda í Pepsi deildar slag í 32-liða úrslitunum. KR-ingar fara til Mosfellsbæjar og mæta Aftureldingu.

Sigurbjörn og Ólafur Jóhannesson, þjálfarar Vals

Bjössi: Þetta var geggjað
„Ég ætlaði að segja það að við værum að missa þetta niður í jafntefli, en við héldum áfram sem betur fer og unnum þennan leik,“ sagði aðstoðarþjálfari Vals, Sigurbjörn Örn Hreiðarsson, eftir leikinn.

„Þetta er fyrsti leikur og tvö hörku lið þannig að menn voru aðeins passasamir og til baka í fyrri hálfleik, en við vorum með nokkrar opnanir sem við gátum nýtt betur. Fórum aðeins yfir það og mér fannst við vera betri í þessum leik þó hann væri ekki mjög opinn.“

„Við höfum spilað betur, en aðal málið var að vinna leikinn, koma okkur af stað eins og menn og við tökum það út úr þessum degi.“

Það hefði ekki verið hægt að panta betri byrjun á tímabilinu, veðrið lék við menn, það var fullt út fyrir dyrum og drama á loka mínútunum.

„Þetta var geggjað. Það var allt frábært nema Peppi (lukkudýr Pepsi deildarinnar) var aðeins fyrir okkur hérna í byrjun en annars var þetta fullkomið. Algjörlega frábær stemming og frábært að byrja þetta svona. Bara geggjað,“ sagði Sigurbjörn Örn Hreiðarsson.

Pálmi Rafn Pálmason. Vísir/Andri Marinó

Pálmi: Við erum KR sko.
„Ég hélt við værum að taka stigið, en þetta var frekar súrt,“ sagði Pálmi eftir leikinn.

„Ég held þetta hafi ekki verið leiðinlegt fyrir áhorfendur, fengu nokkur mörk og við komum ekki síðri inn í leikinn. Við vorum hérna í fyrra og réðum leiknum en töpuðum samt. Þetta er bara klaufaskapur hjá okkur þetta fyrsta mark, við vorum búnir að loka á þá en gerum ein mistök og þeir setja eitt mark.“

Miðað við umræðuna síðustu daga mátti halda að Valur myndi taka yfirburðasigur í öllum leikjum, svo mikið var talað um yfirburði þeirra í þessari deild. KR-ingar gáfu þeim samt leik í dag.

„Við erum KR, sko. Við vorum ekki að fara að koma hingað og skíttapa. Auðvitað gáfum við þeim leik.“

„Þetta var bara sorglegt að gefa öllum þessum áhorfendum ekki neitt til þess að taka með. Frábær mæting og ég vona svo innilega að þetta haldi áfram í sumar, við komum tvíefldir til leiks í næsta leik,“ sagði Pálmi Rafn Pálmason.

Einar Karl Ingvarsson. Vísir/Stefán

Einar Karl: Djöfull var þetta sætt
„Mér líður bara ótrúlega vel, mjög sætt að geta unnið þetta svona í endann í blálokin og fyrir framan stuðningsmennina, þetta verður ekki sætara,“ sagði Einar Karl Ingvarsson sem lagði upp sigurmarkið fyrir Tobias Thomsen.

„Það var svolítið svekkjandi að fá þetta mark á sig, en djöfull var þetta sætt að skora þetta og vinna 2-1. Sérstaklega á móti KR í fyrsta leik.“

Íslandsmeistararnir byrja titilvörnina á besta mögulega mátan og var Einar Karl að vonum mjög sáttur.

„Frábær vinnusigur hjá okkur. Gerðum þetta bara saman og þannig vinnast leikirnir.“

„Vil þakka stuðningsmönnunum fyrir frábæran stuðning og vil sjá stúkuna svona fulla aftur í næsta leik,“ sagði Einar Karl Ingvarsson.

Rúnar Kristinsson

Rúnar: Valur er aldrei að fara að rúlla yfir KR
„Ég er mjög svekktur eftir að við náðum að koma til baka og jafna leikinn. Gríðarlega svekktur fyrir strákana að fá þetta í andlitið, búnir að jafna leikinn og komnir með stig sem við hefðum verið sáttir við,“ sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, eftir leikinn.

„Þetta eru tvö góð lið. Við leyfðum Valsmönnum að hafa boltann og stjórna leiknum en þeir sköpuðu ekki eitt einasta færi í fyrri hálfleik. Áttu eitt skot á markið sem við vörðum í síðari hálfleik áður en þeir skora. Við náum að jafna og komum til baka og vorum skárri í seinni hálfleik. Ég held að jafntefli hefðu verið sanngjörn úrslit.“

„Eins og alltaf þegar þú færð mark á þig þá gerum við okkur seka um mistök en mörk verða yfirleitt ekki til öðru vísi.“

Þrátt fyrir alla umræðuna um mögulega yfirburði Vals var Rúnar ekki á þeim buxunum að neitt slíkt hefði komið til greina hér í kvöld.

„Valur hefur aldrei rúllað yfir KR sko. Það hefur aldrei gerst og mun aldrei gerast, það er alveg ljóst.“

„Við vitum að þeir eru góðir í fótbolta og eru með frábært lið. Við vorum rosalega skipulagðir og héldum þeim alveg í skefjum. Spiluðum ekkert sérstaklega fallegan fótbolta en vorum nálægt því að ná í stig. Áttum ágætis upplegg í byrjun síðari hálfleiks en gerðum ekki nógu vel.“

„Vorum með stig í höndunum en missum það frá okkur. Valsmenn fá þrjú en við ekkert en svona er fótboltinn og við verðum að reyna að byggja ofan á þetta og gera betur næst,“ sagði Rúnar Kristinsson.
 

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.