Erlent

Fulltrúar Efnavopnastofnunar vonast til að komast til Douma

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Víða um heim, þar á meðal á Filippseyjum, er hernaðaríhlutun vestrænna ríkja í Sýrlandi mótmælt.
Víða um heim, þar á meðal á Filippseyjum, er hernaðaríhlutun vestrænna ríkja í Sýrlandi mótmælt. Vísir/Epa
Sýrland Efnavopnastofnunin, sem vinnur að banni á efnavopnum, fær heimild til þess að skoða í dag svæðið nærri Douma í Sýrlandi þar sem grunur leikur á að efnavopnum hafi verið beitt fyrr í mánuðinum. Sérfræðingar Efnavopnastofnunarinnar komu til Damaskus, höfuðborgar Sýrlands, á laugardaginn, en hafa hingað til ekki haft heimild til þess að skoða umrætt svæði. Þau segja að rússnesk og sýrlensk stjórnvöld hafi bannað það vegna öryggissjónarmiða.

Aðgerðasinnar úr röðum stjórnarandstöðunnar, læknasamtök og björgunarsveitamenn segja að fleiri en 40 manns hafi farist þegar flugvél varpaði tunnusprengju með eiturefnum á bæinn þegar uppreisnarmenn höfðu bæinn á valdi sínu. Bandaríkjamenn, Bretar og Frakkar segja að opinber gögn og upplýsingar frá leyniþjónustum þeirra bendi til að klór og hugsanlega taugagas hafi verið notað í árásunum. Flugherir þessara ríkja gerðu á laugardaginn loftárásir á þrjú skotmörk sem sögð eru tengjast efnavopnaframleiðslu Sýrlandsstjórnar.

Stofnunin segir að rússnesk og sýrlensk stjórnvöld fullyrði að af öryggis­ástæðum sé ekki hægt að hleypa samtökunum inn á svæðið þar sem efnavopnaárásirnar eru sagðar hafa verið gerðar. Sýrlensk stjórnvöld hafi í staðinn boðið rannsakendum að taka viðtal við 22 manneskjur sem þau segja að hafi verið á staðnum þegar meint árás á að hafa verið gerð. Sýrlensk stjórnvöld hafi boðist til þess að flytja fólkið til Damaskus þannig að hægt sé að ræða við það.



Í dag eru ellefu dagar frá því að árásin var gerð. Ef rannsakendur komast til Douma í dag er búist við að þeir safni jarðefni og öðrum sýnum til að bera kennsl á efni sem kunna að hafa verið notuð við árásina.

Utanríkisráðuneyti Frakklands sagði í yfirlýsingu í gær að það væri mjög líklegt að verið væri að eyðileggja sönnunargögn á svæðinu. Utanríkisráðherra Rússa, Sergei Lavrov, harðneitar því að Rússar taki þátt í slíku athæfi.

„Ég get fullyrt að Rússar hafa ekki spillt neinu á þessu svæði,“ sagði Lavrov við fréttastöðina BBC. Hann sagði að ásakanir um efnavopnaárásir væru byggðar á fullyrðingum fjölmiðla og fullyrðingum á samfélagsmiðlum. Árásin hefði verið sett á svið. Sýrlensk yfirvöld neita því að þau hafi nokkurn tímann notað efnavopn.

Sérfræðingar Sameinuðu þjóð­anna og samtakanna hafa hins vegar lýst fjórum tilfellum þar sem efnavopnaárásir hafi verið gerðar í borgarastríðinu í Sýrlandi.


Tengdar fréttir

Fá að rannsaka Douma

Rannsakendur Efnavopnastofnunarinnar (OPCW) munu fá aðgang að Douma í Sýrlandi í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×