Erlent

Winnie Mandela látin

Birgir Olgeirsson skrifar
Winnie og Nelson Mandela í febrúar árið 1990 þegar Nelson var sleppt úr haldi.
Winnie og Nelson Mandela í febrúar árið 1990 þegar Nelson var sleppt úr haldi. Vísir/Getty
Suður afríska baráttukonan Winnie Mandela er látin, 81 árs að aldri. Greint er frá andláti hennar á vef fréttastofu breska ríkisútvarpsins BBC.

Winnie Mandela var fyrrverandi eiginkona Nelson Mandela, fyrrverandi forseta Suður Afríku, en hann lést árið 2013, 95 ára að aldri.

BBC segir Winnie og Nelson hafa verið táknmynd baráttunnar gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður Afríku. Til er fræg mynd af þeim þar sem þau ganga saman hönd í hönd sigri hrósandi eftir að Nelson Mandela var sleppt úr haldi eftir að hafa verið í fangelsi í 27 ár.

Þau gengu í hjónaband á sjötta áratug síðustu aldar og voru gift í 38 ár. Stóran hluta af þeim tíma var hins vegar Nelson Mandela á bak við lás og slá en þau skildu árið 1996.

Í tilkynningu sem aðstandendur sendu fjölmiðlum kemur fram að hún hafi látist af völdum sjúkdóms sem hún hafði barist við frá upphafi árs. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.