Enski boltinn

Bjartsýni innan raða Tottenham um að halda öllum ásunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Framtíðin er þeirra.
Framtíðin er þeirra. Vísir/Getty
Tottenham er með ungt og spennandi lið sem er líklegt til afreka á næstu árum. Til að svo verði þurfa menn að ganga frá langtímasamningum við knattspyrnustjóran og ungar stjörnur liðsins.

Telegraph hefur það úr herbúðum félagsins að menn séu bjartsýnir um að það takist að tryggja þessu Tottenham-liði tækifæri til að komast á toppinn á næstu árum.

Samkvæmt frétt Telegraph er Tottenham nálægt því að ganga frá nýjum langtímasamningum við knattspyrnustjórann Mauricio Pochettino sem og við stjörnuleikmennina Dele Alli, Harry Kane, Jan Vertonghen, Hugo Lloris, Son Heung-min Son og Christian Eriksen.

Mikið hefur verið skrifað um áhuga ríku risanna sunnar í álfunni á mönnum eins og þeim Harry Kane og Jan Vertonghen en hinir fjórir leikmennirnir eru einnig í miklum metum.

Mauricio Pochettino er einnig mjög eftirsóttur en í frétt Telegraph segir að félagið sé tilbúið að gera hann að einum af launahæstu stjórum ensku úrvalsdeildarinnar. Félagið þarf að hafa hraðar hendur því argentínski knattspyrnustjórinn hefur verið sterklega orðaður við Real Madrid.





Tottenham vann 3-1 sigur á Chelsea um síðustu helgi í lykilleik í baráttunni um sæti í Meistaradeildinni en mörkin í leiknum skoruðu þeir Dele Alli (2 mörk) og Christian Eriksen.

Tottenham er því komið langleiðina inn í Meistaradeildina 2018-19 og þá mun liðið mæta Manchester United í undanúrslitum enska bikarsins.

Takist Tottenham að ganga frá þessum samningum á næstu mánuðum þá gætu stuðningsmenn félagsins nánast fagnað eins og félagið hafi unnið titil. Það þarf ekki marga öfluga leikmenn í viðbót við þennan sex manna kjarna til að koma liðinu á toppinn og þessir ungu leikmenn eiga flestir enn eftir að toppa sjálfir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×