Enski boltinn

Segir það blessun í dulargervi að Coutinho yfirgaf Liverpool

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Philippe Coutinho hefur átt erfitt uppdráttar hjá Barcelona.
Philippe Coutinho hefur átt erfitt uppdráttar hjá Barcelona. vísir/getty
Brotthvarf Brasilíumannsins Philippe Coutinho frá Liverpool er blessun í dulargervi segir Mark Schwarzer, ástralski markvörðurinn sem varði mark Middlesbrough í ensku úrvalsdeildinni um árabil.

Liverpool gerði allt hvað það gat til að halda Brassanum en varð undir í baráttunni við Katalóníurisann í janúar. Lærisveinar Jürgens Klopp hafa þó bara orðið betri og eru komnir með annan fótinn í undanúrslit Meistaradeildarinnar eftir 3-0 sigur á City í vikunni.

Framherjaþríeykið; Mohamed Salah, Sadio Mané og Roberto Firmino, skorar eins og enginn sé morgundagurinn en þar fer Salah fremstur í flokki. Hann stefnir á markamet í ensku úrvalsdeildinni.

„Liverpool hefur verið að þróast sem lið núna í langan tíma en undir stjórn Klopps hefur það orðið betra með hverri leiktíðinni. Þetta tímabilið hefur það tekið skref fram á við með þessum þremur í framlínunni,“ segir Schwarzer.

„Ef eitthvað er þá var brotthvarf Coutinho blessun í dulargervi því hinir þrír hafa bara orðið betri síðan að hann fór,“ segir Mark Schwarzer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×