Enski boltinn

Upphitun: City verður meistari með sigri

Manchester City fagnar Englandsmeistaratitlinum í dag sigri liðið granna sína og erkifjendur í Manchester United. Slagur Manchesterliðanna er síðasti leikur dagsins en alls eru átta leikir á dagskrá í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Ef City vinnur þennan leik þá fer liðið í 87 stig, 19 stigum á undan United í öðru sætinu þegar aðeins sex leikir verða eftir í deildinni. Það er þó meira undir fyrir United heldur en bara að reyna að koma í veg fyrir að nágrannarnir fái að fagna titlinum; Liverpool getur komist upp fyrir United og í annað sætið með sigri í hádeginu.

Þegar þessi lið mættust á Old Trafford í desember fór City með 1-2 sigur. Sá leikur er leikur sem leikmenn United vilja helst gleyma. Með sigrinum setti City met í úrvalsdeildinni og varð fyrsta liðið til að vinna 14 leiki í röð. Þá hafði United farið 24 leiki í röð án taps á heimavelli sínum áður en Pep Guardiola og hans menn eyðilögðu það.

Fimmtíu kílómetrum vestar fer fram annar borgarslagur, sem hefur kannski ekki eins mikið vægi í tengslum við deildina sjálfa en skiptir borgarbúa gríðarlegu máli. Slagurinn um Bítlaborgina Liverpool.

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði sinn fyrsta Bítlaborgarslag á Anfield í desember þar sem liðin skildu jöfn eftir mark Wayne Rooney úr umdeildri vítaspyrnu. Íslenski landsliðsmaðurinn verður hins vegar á meðal áhorfenda á Goodison Park í dag en hann er enn að ná sér af meiðslum.

Liverpool getur, eins og áður segir, farið upp fyrir Manchester United í annað sæti deildarinnar með sigri. Tæknilega séð er Everton ekki öruggt með sæti sitt í úrvalsdeildinni, tölfræðilega vantar eitt stig upp á það. Hins vegar skipta úrslit þessa leiks bláklædda Liverpoolbúa litlu máli upp á stöðutöfluna, liðið er í 9. sæti með 40 stig, þrjú stig í næsta lið í báðar áttir.

Eftir ellefu leiki án sigurs hefur Burnley nú unnið síðustu þrjá leiki sína í úrvalsdeildinni. Þar af eru síðustu tveir leikir útileikir, en þeir sækja Watford heim í dag.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar sitja sáttir í sjöunda sæti deildarinnar, fimm stigum á eftir Arsenal. Andstæðingar þeirra í dag, Watford, eru í 11. sætinu og ættu að vera búnir að gera nóg til að forðast fall, þrátt fyrir að pakkinn sé enn þéttur í neðri hluta deildarinnar.

Tottenham getur farið langt með að tryggja sér fjórða sætið mikilvæga sigri Lundúnarbúar Stoke í dag. Átta stigum munar á Tottenham og Chelsea í fimmta sætinu fyrir leiki dagsins.

Markaskorarinn Harry Kane meiddist fyrir fjórum vikum síðan í leik við Bournemouth og var búist við því versta. Hann var hins vegar mættur til leiks á páskadag og kom inn á í 3-1 sigrinum á Chelsea. Það er ekki búist við Kane í byrjunarliðinu í dag en hann mun líklega koma við sögu í leiknum.

Þrír leikir til viðbótar fara fram nú síðdegis. West Bromwich Albion verður að sækja sigur gegn Swansea á heimavelli ætli liðið að halda í einhverja von um að halda sér í deildinni. Tíu stig eru í 17. sætið þar sem Crystal Palace situr.

Palace mætir Bournemouth á sama tíma og aðeins sjö stigum munar á liðunum, bæði í stigafjölda og sætisskipan. Nýliðaslagur Brighton og Huddersfield ásamt leik Leicester og Newcastle eru þeir leikir sem óupptaldir voru. Línur geta farið að skýrast í neðri hlutanum eftir daginn, en öll þessi lið eru þar að berjast um sæti í deildinni á næsta tímabili.

Leikir dagsins:

11:30 Everton - Liverpool, bein útsending á Stöð 2 Sport

14:00 Bournemouth - Crystal Palace

14:00 Brighton - Huddersfield

14:00 Leicester - Newcastle

14:00 Stoke - Tottenham, bein útsending á Stöð 2 Sport

14:00 Watford - Burnley

14:00 WBA - Swansea

16:30 Manchester City - Manchester United, bein útsending á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×