Erlent

Trump sagður vilja draga Bandaríkin út úr Sýrlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Öllum að óvörum talaði Trump um að draga herlið frá Sýrlandi á fundi með stuðningsmönnum á fimmtudag.
Öllum að óvörum talaði Trump um að draga herlið frá Sýrlandi á fundi með stuðningsmönnum á fimmtudag. Vísir/AFP
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt ráðgjöfum sínum að hann vilji draga bandaríska hermenn út úr Sýrlandi fyrr en áætlað var. Sú afstaða forsetans er sögð í andstöðu við mat stjórnenda Bandaríkjahers enda sé baráttunni gegn hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams hvergi nærri lokið.

Verulegur árangur hefur náðst í herferð Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra gegn Ríki íslams. Bandaríska varnarmálaráðuneytið segir að samtökin hafi misst um 98% af yfirráðasvæði sínu í Írak og Sýrlandi. Þrátt fyrir það óttast bandarískir herforingjar að vígamennirnir geti snúið vörn hratt í sókn ef stöðugleika verður ekki komið á fljótt á frelsuðum svæðum.

Trump hefur hins vegar ekki gefið mikið fyrir þær áhyggjur. Þannig frysti hann 200 milljón dollara framlag til uppbyggingar í Sýrlandi sem var ætlað að koma stöðugleika á eftir að hann las um það í fréttum. Rex Tillerson, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, tilkynnti um framlagið í febrúar.

Reuters-fréttastofan segir að þjóðaröryggisráð Bandaríkjanna ætli að funda snemam í næstu viku um herferðina gegn Ríki íslams í Sýrlandi.

Á fundi með stuðningsmönnum sínum í Ohio á fimmtudag lýsti Trump því óvænt yfir að Bandaríkjamenn myndu brátt láta aðrar þjóðir um að axla ábyrgð á ástandi mála í Sýrlandi og hafa sig þaðan á brott.

„Við munum fara út úr Sýrlandi, þú veist, mjög fljótt. Látum aðra um að sjá um þetta núna. Mjög fljótt, mjög fljótt, förum við út,“ sagði forseti Bandaríkjanna.

Á sama tíma hafa frönsk stjórnvöld í hyggju að fjölga í herliði sínu í Sýrlandi til að styðja við baráttuna gegn Ríki íslams sem Bandaríkin hafa leitt fram að þessu og hefta sókn Tyrkja gegn Kúrdum.


Tengdar fréttir

Tyrkir hafna boði Frakklandsforseta

Ibrahim Kalin, talsmaður tyrkneska forsetaembættisins, hafnaði boði Macron um milligöngu og sagði Tyrki hafna öllum tillögum um viðræðum við hryðjuverkasamtök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×