Erlent

Friðarviðræðum í Austur-Ghouta miðar vel áfram

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Douma er í rúst eftir linnulausar loftárásir Assad-liða. Nordicphotos/AFP
Douma er í rúst eftir linnulausar loftárásir Assad-liða. Nordicphotos/AFP
Friðarviðræðum á milli uppreisnarmanna og Rússa, helstu bandamanna stjórnarhers Bashars al-Assad, forseta Sýrlands, í Austur-Ghouta miðar vel áfram. Þetta kom fram í tilkynningu frá uppreisnarmönnum í gær en Sameinuðu þjóðirnar hafa milligöngu um viðræðurnar.

Mikið mannfall almennra borgara hefur verið í orrustunni um Austur-Ghouta undanfarnar vikur. Talið er að rúmlega 1.600 almennir borgarar hafi fallið. Eftirlitssamtökin Syrian Observatory for Human Rights hafa greint frá því að 144.000 til viðbótar hafi misst heimili sín.

Sókn stjórnarliða hefur verið þung og hefur stjórnarherinn endur­heimt stærstan hluta svæðisins. Síðasta vígi uppreisnarmanna er bærinn Douma og er hann undir stjórn uppreisnarfylkingarinnar Jaish al-Islam.

Jafnt almennir borgarar sem uppreisnarmenn hafa undanfarið flúið aðra bæi Austur-Ghouta. Hafa uppreisnarmenn fengið að fara til Idlib óáreittir. Jaish al-Islam hefur hins vegar hafnað slíkum samkomulögum. Hefur fylkingin sagt að slíkt sé gert til þess að tryggja að almennir borgarar, andvígir Assad, hypji sig frá Austur-Ghouta.

Rússneski miðillinn Interfax greindi frá því í gær að samkomulag hefði náðst um rýmingu Douma. Hafði miðillinn það eftir herforingjanum Sergei Rudskoj. Þessu neitaði Hamza Birqdar, talsmaður Jaish al-Islam, þó fljótlega eftir að fréttin birtist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×