Erlent

Viðkvæmasti hluti suðurskautsíssins heldur áfram að rýrna hraðar

Kjartan Kjartansson skrifar
Kortið sýnir flæði íss á Suðurskautslandinu. Litakóðinn sýnir hraða flæðisins á einu ári.
Kortið sýnir flæði íss á Suðurskautslandinu. Litakóðinn sýnir hraða flæðisins á einu ári. NASA Earth Observatory
Ístap á Suðurskautslandinu hefur aukist um tugi milljarða tonna á hverju ári síðasta áratuginn. Nýjar gervihnattamælingar vísindamanna NASA sýna að áfram herðir á rennsli jökla út í sjó á vesturhluta Suðurskautslandsins en ísflæðið er stöðugt á austurhluta álfunnar.

Vísindamennirnir notuðu hundruð þúsunda mynda frá tveimur Landsat-gervitunglum Jarðfræðistofnunar Bandaríkjanna og nýjan hugbúnað til þess að mæla hreyfingar íshellunnar á Suðurskautslandinu með mikilli nákvæmni, að því er kemur fram í frétt á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA. Myndirnar voru teknar frá 2008 til 2015.

Niðurstöðurnar staðfesta að mestu leyti fyrri rannsóknir á ísnum. Mest hefur hraðað á framgangi íssins út í Marguerite-flóa á Suðurskautslandsskaganum sem gengur út úr vestanverðri álfunni. Þar renna jöklar nú 400-800 metrum hraðar fram á hverju ári. Vísindamennirnir telja að ástæðan sé hlýnun hafsins í kringum þá.Langmest kemur frá vesturhlutanum

NASA segir að stærsta uppgötvunin sé líklega að hraði ísrennslisins á austanverðu Suðurskautslandinu haldi áfram að vera stöðugur. Frá 2008 til 2015 hefur hraðinn nánast ekkert breyst. Vísindamenn hafa áður dregið þá ályktun að eystri hluti íshellunnar sé afar stöðugur en hraðinn á jöklum sem ganga þar út í hafið hefur ekki verið mældur með beinum hætti áður.

Alls runnu 1.929 milljarðar tonna af ís Suðurskautslandsins út í hafið á hverju ári árið 2015. Skekkjumörk rannsóknarinnar eru um 40 milljarðar tonna. Magnið hefur aukist um 36 milljarðar tonna á ári frá árinu 2008 með 15 milljarðara tonna skekkjumörkum.

Af aukningunni í ístapinu kemur langstærsti hlutinn frá jöklum á Vestur-Suðurskautslandinu, við Amundsenhafið, Getz-íshelluna og Marguerite-flóa, alls um 89%.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.