Erlent

Öryggisheimild tengdasonarins afturkölluð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jared Kushner sést hér Donald Trump á vinstri hönd.
Jared Kushner sést hér Donald Trump á vinstri hönd. VÍSIR/AFP
Jared Kushner, tengdasonur Donald Trump og einn af hans helstu ráðgjöfum, fær ekki lengur aðgang að háleynilegum skjölum og gögnum í starfi sínu, eftir að öryggisheimild hans var lækkuð. CNN greinir frá.

Þetta þýðir að hann, ásamt fjölda annarra starfsmanna Hvíta hússins sem höfðu tímabundin aðgang að leynilegustu ríkisleyndarmálum Bandaríkjanna, mega aðeins fá aðgang að skjölum sem eru skör neðar en æðsta öryggisheimildin veitir aðgang að.

Mun Kushner til að mynda því ekki lengur hafa heimild til þess að sjá þær leyniþjónustuupplýsingar sem Trump fær daglega. Kushner hefur verið falið fjölda starfa fyrir ríkisstjórnina, þar á meðal að koma á friði í Miðausturlöndum. Kushner starfar launalaust fyrir Hvíta húsið sem ráðgjafi fyrir tengdaföður sinn.

John Kelly, starfsmannastjóri Hvíta hússins, ákvað fyrr í þessum mánuði að breyta reglum um öryggisheimildir þannig að tímabundnar heimildir yrðu ekki lengur veittar til þeirra sem hafa ekki fengið umsóknir sínar afgreiddar frá því í júní í fyrra.

Steinninn í götu varanlegrar öryggisheimildar Kushner er meðal annars að hann þurfti ítrekað að uppfæra umsókn sína vegna þess að hann hafði ekki greint að fullu frá fundum sínum með aðilum sem tengjast Rússlandi.


Tengdar fréttir

Reyndu að koma höggi á CNN með fölsuðum tölvupósti

Fjölskylda nemanda við skólann þar sem fjöldamorð var framið á Valentínusardag virðist hafa átt við tölvupóst til að fullyrða að CNN hafi stýrt spurningum nemenda til þingmanna í umræðuþætti í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×