Erlent

Hyggjast refsa sextán fyrir Róhingjamorð

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Róhingjar á flótta.
Róhingjar á flótta. VÍSIR/EPA

Yfirvöld í Mjanmar ætla að refsa sjö hermönnum, þremur lögreglumönnun og sex almennum borgurum sem voru viðriðnir dráp á Róhingjum í Rakhine-héraði. Frá þessu greindi Zaw Htay, talsmaður ríkisstjórnarinnar, í gær en sagði ákvörðunina ótengda umfjöllun Reuters um málið.

Reuters greindi fyrir helgi frá því þegar tíu Róhingjar voru teknir af lífi án dóms og laga í smábænum Inn Din. Sagði Htay þá við miðilinn að gripið yrði til aðgerða ef umfjöllunin reyndist á rökum reist.

„Þetta er ekki út af frétt Reuters. Rannsóknin var vel á veg komin áður en fréttin birtist,“ sagði Htay í gær. Hann greindi þó ekki frá því hvað fælist í refsingunni.

Í frétt Reuters í gær kom fram að þann 10. janúar hafi herinn sagt Róhingjana tíu hafa tilheyrt 200 manna hryðjuverkasellu sem ráðist hefði á hermenn. Hins vegar stangist sú frásögn á við vitnisburð almennra borgara í Rakhine sem voru vitni að morðunum.

Nærri 700.000 Róhingjar hafa flúið Rakhine-hérað frá því í ágúst og farið til Bangladess. Samkomulag hefur náðst um að senda flóttamennina til baka á árinu. Aðgerðir hersins í Rakhine hafa ýmist verið kallaðar þjóðernishreinsanir eða þjóðarmorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×