Erlent

Bensínsprengju varpað á hús Suu Kyi

Atli Ísleifsson skrifar
Aung San Suu Kyi var ekki heima þegar árásin var gerð.
Aung San Suu Kyi var ekki heima þegar árásin var gerð. Vísir/AFP
Bensínsprengju var varpað á heimili Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar, við Inyavatn í Rangoon í morgun. Frá þessu greinir talsmaður stjórnar landsins.

Suu Kyi var ekki heima þegar árásin var gerð. „Þetta var bensínsprengja,“ segir talsmaðurinn Zaw Htay, en áður höfðu upplýsingar verið á reiki um hvers lags sprengju hafi verið um að ræða.

Atburðir sem þessir eru mjög óalgengir í landinu og hafa engar upplýsingar komið fram um ástæður árásarinnar.

Suu Kyi hefur sætt mikilli gagnrýni að undanförnu, ekki síst vegna þess hvernig hún hefur staðið að málum þegar kemur að ástandinu í Rakhine-héraði. Nokkur hundruð þúsund Rohingja hafa flúið héraðið síðustu mánuði eftir ofsóknir hersins.

Baráttukonan og Nóbelsverðlaunahafinn Suu Kyi var um árabil haldið í stofufangelsi af herforingjastjórn landsins, en eftir lýðræðisumbætur síðustu ára varð hún gerð að leiðtoga landsins.

Vegna sérstakra reglna sem settar voru á hernum getur Suu Kyiekki orðið forseti landsins. Hún gegnir hins vegar embætti ríkiskanslara, sem gerir hana í reynd að leiðtoga landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×