Erlent

Ók á gangandi í Stokkhólmi: Akilov ákærður fyrir hryðjuverk

Atli Ísleifsson skrifar
Rakhmat Akilov ók vörubíl á gangandi vegfarendur á Drottningargötu í Stokkhólmi þann 7. apríl síðastliðinn.
Rakhmat Akilov ók vörubíl á gangandi vegfarendur á Drottningargötu í Stokkhólmi þann 7. apríl síðastliðinn.
Úsbekinn Rakhmat Akilov hefur verið ákærður meðal annars fyrir hryðjuverk og tilraun til hryðjuverkabrots eftir að hann ók á gangandi vegfarendur á Drottningargötunni í Stokkhólmi þann 7. apríl síðastliðinn. Fimm manns fórust í árásinni.

Ákæran var birt í dag, en á sama tíma voru um níu þúsund blaðsíður af rannsóknargögnum lögreglu birt.

Í ákærunni kemur fram að Akilov hafi verið að undirbúa árásina um margra mánaða skeið. Á hann að hafa verið í samskiptum við liðsmenn hryðjuverkasamtakanna ISIS og boðist til að framkvæma árás í Stokkhólmi í nafni samtakanna.

Sór ISIS hollustu

Markmið Akilov á að hafa verið að skapa ótta meðal almennings í Svíþjóð og fá sænsk yfirvöld til að hætta aðild sinni að alþjóðlegri baráttu gegn ISIS. Á minniskubbi í eigu Akilov á lögregla einnig að hafa fundið gögn tengd ISIS og myndband þar sem Akilov sver samökunum hollustu sína.

Saksóknarar hafa farið fram á að Akilov verði dæmdur í lífstíðarfangelsi og síðar brottvísun frá landinu.

Ennfremur kemur fram í gögnum lögreglu að Akilov hafi sent myndir úr vörubílnum þegar hann ók niður Drottningargötuna. Þá hafi heimagerð sprengja fundist í vörubílnum. Hún hafi hins vegar ekki spurungið líkt og Akilov hafði vonast eftir.

Vísir/EPA
Leitaði á Google að skemmtistöðum fyrir samkynhneigða

Hinn 39 ára Akilov á að hafa skipulagt árásina frá að minnsta kosti 16. janúar 2017. Þá tók hann ljósmyndir á nokkrum stöðum í Stokkhólmi, meðal annars Drottningargötu, Hötorget og Sveavägen. 

Þá á hann einnig að hafa leitað upplýsinga á Google um skemmtistaði fyrir hinsegin fólk í Stokkhólmi og báta sem bjóða upp á útsýnisferðir fyrir ferðamenn.

Fimm fórust

Akilov rændi vörubíl og ók honum um niður Drottningargötuna. Þrír fórust á staðnum og tveir til viðbótar létust síðar á sjúkrahúsi. Akilov var handtekinn á bensínstöð síðar sama dag eftir að hann hafði tekið strætó í úthverfi Stokkhólms og sagt starfsfólki að „það var [hann] sem gerði þetta“.

Tveir fréttamannafundir eru fyrirhugaðir síðar í dag, annars vegar fréttamannafundur saksóknara og hins vegar verjanda Akilov.


Tengdar fréttir

Árásarmaðurinn notaðist við tvö nöfn

Í úrskurði um dvalarleyfisumsókn kom fram að Rakhmat Akilov hefði villt á sér heimildir í Svíþjóð. Beðið hefur verið um framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir manninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×