Erlent

Dóttir Woody Allen hjólar í Timberlake fyrir að vinna með föður hennar

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Justin Timberlake er hér lengst til vinstri ásamt þeim Kate Winslet, Woody Allen, Juno Temple og Jim Belushi á frumsýningu myndar Allen Wonder Wheel þar sem Timberlake fer með eitt aðalhlutverkið.
Justin Timberlake er hér lengst til vinstri ásamt þeim Kate Winslet, Woody Allen, Juno Temple og Jim Belushi á frumsýningu myndar Allen Wonder Wheel þar sem Timberlake fer með eitt aðalhlutverkið. vísir/getty

Dylan Farrow, dóttir leikstjórans Woody Allen, lætur söngvarann Justin Timberlake heyra það fyrir að fyrir að hafa unnið með föður hennar en eins og kunnugt er hefur Farrow sakað Allen um að misnota hana kynferðislega þegar hún var barn.



Farrow, sem er ættleidd dóttir Allen og leikkonunnar Miu Farrow, svaraði Timberlake á Twitter í gær þar sem hann spurði hver væri eiginlega merking orðatiltækisins að vilja eiga kökuna og borða hana líka.



Sagði Farrow að orðatiltækið þýddi til dæmis að ekki væri hægt að styðja við átakið Time‘s Up og dásama kynferðisbrotamenn á sama tíma.



„Þú getur ekki varðveitt trúverðugleika þinn sem aktívisti (það er átt kökuna) og á sama tíma dásamað kynferðisbrotamann (það er borðað kökuna),“ sagði Farrow í svari sínu til Timberlake.

Farrow svaraði Timberlake fullum hálsi á Twitter.

Segist heillaður af baráttu kvenna en draumur rættist þegar hann vann með Woody Allen

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Dylan Farrow gagnrýnir stjörnur skemmtanabransans, og þar á meðal Justin Timberlake, fyrir að vinna með föður hennar. Fyrr í mánuðinum var greint frá því að hún væri komin með nóg af hræsnurunum sem segjast styðja vitundarvakninguna í Hollywood um kynferðislega áreitni og valdníðslu í garð kvenna en kjósa samt að starfa með föður hennar.



Þá sagði hún þetta um Timberlake:



„Ég á erfitt með það að jafn valdamikill maður og Justin Timberlake geti sagst vera heillaður af baráttu kvenna og styðja þær en í sömu andrá segir hann draum sinn hafa ræst þegar hann vann með Woody Allen.“



Rúmlega 300 konur rituðu nafn sitt við yfirlýsinguna Time´s up í desember síðastliðnum þar sem þær lýstu yfir stuðningi við baráttu sem miðast að því að uppræta kerfisbundið kynferðislegt ofbeldi í Hollywood, sem og öðrum starfsstéttum. Þar á meðal voru nokkrar leikkonur sem hafa unnið með Woody Allen en þær Mira Sorvino og Greta Gerwig hafa báðar sagt að þær muni aldrei vinna aftur með Allen.



Allen hefur alltaf neitað ásökunum Dylan Farrow um kynferðislega misnotkun en á það hefur verið bent að dómari í forræðisdeilu hans og Miu Farrow á 10. áratug síðustu aldar komst að þeirri niðurstöðu að hegðun Allen í garð dótturinnar hefði verið algerlega óviðeigandi.


Tengdar fréttir

Lýsti því hvernig Woody Allen misnotaði hana

Dylan Farrow, dóttir Woody Allen, segir að hann hafi leitt sig upp á háaloft þegar hún var barn þar sem hann misnotaði hana á meðan hún lék sér með leikfangalest bróður hennar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×