Erlent

Mira Sorvino biðst fyrirgefningar á samstarfi við Woody Allen

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Mira Sorvino
Mira Sorvino Vísir/Getty

Leikkonan Mira Sorvino hefur skrifað opið bréf til Dylan Farrow, dóttur Woody Allen, þar sem hún segist sjá eftir því að hafa unnið með leikstjóranum í kvikmyndinni Mighty Aphrodite sem kom út árið 1995.Sorvino hlaut óskarsverðlaun fyrir hlutverk sitt sem vændiskona í myndinni en segist nú vera miður sín og að hún muni aldrei vinna með honum aftur. „Ég get ekki einu sinni ímyndað mér hvernig þér hefur liðið öll þessi ár þegar þú fylgdist með manni, sem þú sagðir opinberlega að hafi brotið á þér sem barn, sem berskjaldaðri lítilli stúlku í hans umsjá, vera lofaður í hástert, af mér og ótal öðrum í Hollywood sem lofa hann og hundsa þig,“ skrifaði Sorvino í the Huffington Post.„Sem móðir og kona er ég miður mín, fyrirgefðu.“

Mia Farrow ásamt Dylan Farrow.Vísir/Getty

Ræddi við bróður Dylan

Sorvino er ein þeirra kvenna sem hefur talað opinskátt um áreitni og ofbeldi af hendi Harvey Weinstein og ræddi meðal annars við blaðamanninn Ronan Farrow, sem er bróðir Dylan.„Ég sagði honum að ég vildi vita meira um þig og ykkar aðstæður,“ skrifar hún.„Hann benti mér á það sem hefur komið fram opinberlega en ég var því miður ekki meðvituð um og þá sá ég hversu mikið sönnunargögnin styðja við þína frásögn. Að þú hafir alla tíð sagt sannleikann.“Dylan Farrow tjáði sig um bréf Sorvino á Twitter síðu sinni. Þar þakkaði hún henni fyrir fallegt bréf og sagði Sorvino hugrakka.

Dylan Farrow greindi fyrst frá ofbeldinu opinberlega í opnu bréfi árið 2014 og síðan þá hefur hún margsinnis gagnrýnt listamenn sem velja að vinna með föður sínum. Nokkrir hafa stigið fram undanfarin misseri og afneitað Allen. Leikkonan Ellen Page er meðal þeirra sem hefur sagst sjá eftir samstarfi við Allen sem og leikarinn David Krumholtz. Þá sagði leikkonan og leikstjórinn Greta Gerwig að hún myndi aldrei aftur vinna með Allen, en hún lék í mynd hands To Rome With Love.

„Ég get aðeins talað fyrir sjálfa mig og niðurstaða mín er þessi: ef ég hefði vitað það sem ég veit núna þá hefði ég ekki leikið í myndinni. Ég hef ekki unnið fyrir hann aftur og ég mun aldrei vinna fyrir hann aftur,“ segir Gerwig.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.