Erlent

Drykkjarvatn að klárast í Höfðaborg eftir áralangan þurrk

Kjartan Kjartansson skrifar
Íbúar í úthverfi Höfðaborgar fylla á vatnsbrúsa í náttúrulind. Takmörk hafa verið sett á daglega vatnsnotkun heimila í borginni.
Íbúar í úthverfi Höfðaborgar fylla á vatnsbrúsa í náttúrulind. Takmörk hafa verið sett á daglega vatnsnotkun heimila í borginni. Vísir/AFP

Innan við þriggja mánaða birgðir af drykkjarvatni eru eftir í vatnsbólum Höfðaborgar í Suður-Afríku. Fjórar milljónir borgarbúa gætu orðið án vatns í seinni hluta apríl ef þeir stórminnka ekki neysluna. Sögulegur þurrkur hefur plagað svæðið í þrjú ár.

Borgaryfirvöld hafa ákveðið að þegar vatnsbólin verða komin niður í 13,5% af geymslugetu sinni verði skrúfað fyrir almenna vatnsveitu nema fyrir bráðnauðsynlega þjónustu eins og spítala. Þá verður gripið til skammtana á vatni, að því er segir í umfjöllun Time.

Nú þegar hafa verið sett takmörk á daglega notkun heimila. Þannig hafa borgarbúar þurft að fara í snöggar sturtur, sleppt því að vökva garða eða skola bíla og sleppa því að sturta niður klósettum nema þegar það er algerlega nauðsynlegt.

Hluti vandans er sá að geta vatnsveitunnar hefur ekki aukist í samræmi við fólksfjölgun en fjöldi borgarbúa Höfðaborgar hefur tvöfaldast á tuttugu árum. Þó að yfirvöld hefðu brugðist við þeirri þróun í tíma hefði þurrkurinn samt haft mikil áhrif.

Loftslagsvísindamenn spá því að þurrkar verði algengari í framtíðinni með áframhaldandi hlýnun jarðar. Vatnsskortur í Höfðaborg gæti því orðið viðvarandi vandamál.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.