Erlent

Skotárás í skóla í Flórída: Nokkrir látnir en lögreglan er með árásarmann í haldi

Birgir Olgeirsson skrifar
Fréttamyndir vestanhafs sýna nemendur flýja skólann sem var umkringdur lögreglumönnum.
Fréttamyndir vestanhafs sýna nemendur flýja skólann sem var umkringdur lögreglumönnum. Vísir/Getty
Lögregla í Flórída í Bandaríkjunum hefur handtekið einstakling sem hóf skotárás í framhaldsskóla fyrr í dag. Á vef Reuters kemur fram að einstaklingurinn hafi sært allt að tuttugu manns en fjölmiðlar vestanhafs hafa birt fréttamyndir af vettvangi þar sem mátti sjá fjölda nemenda flýja skólabygginguna sem var umkringd lögreglu.

Skólinn sem um ræðir ber nafnið Marjory Stoneman Douglas High School í borginni Parkland, sem eru um 72 kílómetrum norður af borginni Miami.

Á vef Reuters kemur fram að skotárásin átti sér stað skömmu áður en skóladeginum var að ljúka. Stjórnendur skólans og lögregla báðu foreldra sem voru í sambandi við börnin sín að koma þeim skilaboðum áfram að biðja nemendurna um að halda sig í felum í skólastofum á meðan lögreglan leitaði árásarmannsins. 

Á vef Miami Herald er því haldið fram að nokkrir hafi látið lífið í þessari árás.  Þingmaðurinn Ben Nelson segir við CNN að nokkrir hafi látið lífið í þessari árás.

Borgin Parkland er í Broward-sýslu í Flórída en á Twitter-reikningi lögregluembættis sýslunnar kemur fram að árásarmaðurinn sé nú í haldi lögreglu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.