Þórsarar skelltu Haukum í Inkasso-deild karla í kvöld en lokatölur urðu 4-1. Haukarnir leiddu í hálfleik 1-0.
Það byrjaði vel fyrir Haukana sem höfðu tapað tveimur leikjum í röð fyrir leikinn í kvöld. Arnar Aðalgeirsson kom þeim yfir á fjórtándu mínútu.
Þannig stóðu leikar í hálfleik en eitthvað hefur Lárus Orri Sigurðsson, þjálfari Þórsara, sagt við sína menn í hálfleik því í þeim síðari rigndu mörkunum.
Alvaro Montejo jafnaði úr vítaspyrnu á 54. mínútu, Ármann Pétur Ævarsson kom þeim í 2-1 þremur mínútum síðar og á 60. mínútu skoraði Bjarki Þór Viðarsson þriðja mark Þórsara.
Ótrúlegur sex mínútna kafli hjá Þórsurum sem gerðu svo fjórða markið tólf mínútum fyrir leikslok er Óskar Elías Zoega Óskarsson kom sér á blað.
Með sigrinum eru Þórsarar á toppi Inkasso-deildarinnra með 26 stig en ÍA, HK og Víkingur Ólafsvík eiga leik til góða.
Haukarnir eru hins vegar í áttunda sæti og geta með óhagstæðum úrslitum verið komnir í tíunda sætið eftir umferðina.
Úrslit og markaskorarar eru fengnir frá úrslit.net.
