Stjórnvöld í Norður- og Suður-Kóreu hafa náð samkomulagi um að íþróttamenn ríkjanna keppi undir sameiginlegum fána Kóreu á vetrarólympíuleikunum í Suður-Kóreu í næsta mánuði. Nágrannaríkin ætla jafnframt að stilla upp sameiginlegu kvennaliði í íshokkí.
Vetrarólympíuleikarnir fara fram í Pjeongtsjang í Suður-Kóreu dagana 9.-27. febrúar. Breska ríkisútvarpið BBC segir að þjálfari íshokkíliðs sunnanmanna hafi lýst áhyggjum af því að stilla upp sameiginlegu liði því það geti skaðað möguleika þeirra á að vinna til verðlauna.
Viðræður ríkjanna tveggja eru þær fyrstu í tvö ár. Mikil spenna hefur ríkt á Kóreuskaga undanfarna mánuði vegna tilrauna stjórnvalda í Pjongjang með kjarnavopn og langdrægar eldflaugar.
Norður- og Suður-Kórea keppa undir sama fána
Kjartan Kjartansson skrifar
