Erlent

Dómur yfir Oscar Pistorius þyngdur í rúm þrettán ár

Atli Ísleifsson skrifar
Oscar Pistorius varð fyrsti fatlaði íþróttamaðurinn til að keppa á Ólympíuleikum og sá fyrsti til að vinna gull í 100, 200 og 400 metra hlaupi á Ólympíuleikum fatlaðra.
Oscar Pistorius varð fyrsti fatlaði íþróttamaðurinn til að keppa á Ólympíuleikum og sá fyrsti til að vinna gull í 100, 200 og 400 metra hlaupi á Ólympíuleikum fatlaðra. Vísir/AFP
Áfrýjunardómstóll í Suður-Afríku hefur þyngt fangelsisdóm yfir spretthlauparanum Oscar Pistorius í þrettán ár og fimm mánuði. BBC greinir frá.

Pistorius hafði áður verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að hafa banað kærustu inni, Reeva Steenkamp, á Valentínusardeginum árið 2013. Saksóknarar áfrýjuðu dómnum sem þeir töldu of vægan.

Pistorius skaut Steenkamp fjórum sinnum með 9 millimetra skammbyssu í gegnum baðherbergishurð á heimili þeirra í Pretoriu. Pistorius viðurkenndi að hafa skotið hana en sagðist hafa talið að hún væri innbrotsþjófur.

Handtaka Pistorius skók suður-afrísku þjóðina á sínum tíma enda var spretthlauparinn álitinn þjóðarhetja eftir afrek sín á hlaupabrautinni.

Hann varð fyrsti fatlaði íþróttamaðurinn til að keppa á Ólympíuleikum og sá fyrsti til að vinna gull í 100, 200 og 400 metra hlaupi á Ólympíuleikum fatlaðra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×