Breytingar voru gerðar á Íslenskum toppfótbolta í gær er ákveðið var á aðalfundi að taka inn félögin sem leika í næstefstu deild, Inkasso-deildinni.
Hingað til hefur Íslenskur toppfótbolti verið hagsmunasamtök efstu deildar félaganna. Nú koma þau lið í Inkasso-deildinni inn sem vilja. Þau lið sem falla úr Inkasso-deildinni geta líka verið með.
„Það eru ákveðnir hagmsunir sem fara saman með liðunum í báðum deildum. Markaðs-, trygginga- og sjónvarpsmál til að mynda,“ segir Haraldur Haraldsson, formaður Íslensks toppfótbolta.
„Við viljum stækka og styrkja samtökin. Það er auðvitað himinn og haf á milli ákveðinna félaga en það er samt fullt af atriðum sem við í krafti fjöldans getum unnið saman. Innkaup á boltum og almennt betri samningar. Það er hagkvæmt að vera sem flestir saman.“
Liðin í Inkasso-deildinni hafa ekki verið að sækjast sérstaklega eftir inngöngu í samtökin en fulltrúar átta af tólf liðum deildarinnar mættu á aðalfundinn í gær. Haraldur býst við því að hin liðin vilji líka vera með.
„Við erum að fara að vinna í málum þar sem er gott fyrir alla að vera með. Svo erum við að fá alls konar ráðgjöf í fullt af málum þar sem er gott að sem flestir fái upplýsingar. Við viljum efla gæðin í starfinu.“
Íslenskur toppfótbolti heldur áfram að stækka
Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Fleiri fréttir
