Innlent

Símon Sigvaldason nýr dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Símon Sigvaldason hefur verið skipaður dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur.
Símon Sigvaldason hefur verið skipaður dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. vísir
Símon Sigvaldason, héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, var kjörinn dómstjóri dómsins þann 28. september síðastliðinn.

Hann hefur verið skipaður í embættið frá og með 1. desember næstkomandi en frá þessu er greint á heimasíðu Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá var Barbara Björnsdóttir, héraðsdómari, kjörin varadómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur. Fráfarandi dómstjóri er Ingimundur Einarsson.

Símon var skipaður héraðsdómari í Reykjavík árið 2004. Hátt sakfellingarhlutfall hans í sakamálum hefur vakið athygli fjölmiðla og var fjallað um það í kvöldfréttum Stöðvar tvö árið 2012.

Kom þá fram að af þeim síðustu 304 sakamálum sem hann hafði dæmt í þá hafði hann aðeins sýknað í tveimur þeirra. Var sakfellingarhlutfallið því 99,4 prósent. Hefur Símon fengið viðurnefnið „grimmi“ hjá þeim lögmönnum sem hafa tapað hjá honum málum.

Í ítarlegu viðtali við Ísland í dag árið 2015 sagði Símon að viðurnefnið trufli sig lítið og að hann vonaði að það truflaði sem fæsta. Þá kvaðst hann vera afar ljúfur að eðlisfari en þetta viðtal við Símon, þar sem hann ræðir meðal annars um traust almennings til dómstóla og dómskerfið almennt, má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.