Enski boltinn

Alan Shearer: Óttast mikið heilabilun hjá sér í framtíðinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alan Shearer.
Alan Shearer. Vísir/Getty
Enska knattspyrnugoðsögnin Alan Shearer er aðalmaðurinn í nýrri heimildarmynd BBC þar sem heimildargerðarmenn skoða nánar tengsl á milli höfuðhögga fótboltamanna og heilabilunar á efri árum.

Alan Shearer skoraði ófá skallamörkin á farsælum ferli sínum í ensku úrvalsdeildinni en hann er markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Telegraph ræddi við Alan Shearer um þessa heimildarmynd en hann er nú orðinn 47 ára gamall og hefur miklar áhyggjur af áhrifum fótboltaferilsins á heilann sinn.

Alan Shearer óttast mjög mikið að hann fá dementiu eða vitglöp eins og þessi heilasjúkdómahópur hefur verið kallaður á íslensku.

Það er þekkt dæmi að fótboltamenn hafi fengið slíka sjúkdóma á efri árum en þeir Jeff Astle og Nobby Stiles teljast báðir til þess hóps.

„Ég hef áhyggjur af því að ég dái dementíu og það er eitthvað sem angrar mig. Ég mun kannski ekki eiga góða framtíð vegna fótboltans,“ sagði Alan Shearer í viðtalinu við blaðamann Telegraph.

Hann fór í rannsókn hjá háskólanum í Stirling og í heimildarmyndinni er fylgst með því þegar heili Alan Shearer er skoðaður af fræðimönnum háskólans.

Alan Shearer var þekktur fyrir að skalla boltann 150 sinnum á markið á hverri æfingu og þá lenti hann mjög oft í því að fá höfuðhögg eftir skallaeinvígi inn á fótboltavellinum.

„Ég varð fyrir höfuðmeiðslum á vellinum en þá hljóp maður bara útaf, það voru saumuð nokkur spor, hausinn var vafinn og svo hljóp maður strax inn á völlinn aftur. Þetta var bara það sem var búist við af manni þá,“ sagði Shearer.

„Ég hef samt meiri áhyggjur af áhrifunum frá öllum boltunum sem ég skallaði á æfingunum. Ég hef áhyggjur af því. Ég var kannski að skalla boltann 30, 40, 50 sinnum,“ sagði Shearer. Það má sjá allt viðtalið við hann með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×