Erlent

Yfir tvær milljónir manna í gleðigöngu Heimshátíðar hinsegin fólks

Heimir Már Pétursson skrifar
Milljónir manna tóku þátt í Heimshátíð hinsegin fólks, eða World Pride sem fram fór í Madrid í síðustu viku og náði hámarki með mikilli gleðigöngu seinnipartinn í gær og í gærkvöldi.

World Pride, sem gæti útlagst Heimshátíð hinsegin fólks á íslensku, hefur að jafnaði verið haldin annað hvort ár frá aldamótaárinu 2000. Hátíðinni er ætlað að varpa ljósi á stöðu hinsegin fólks víðas vegar um heiminn en dagskráin í Madrid hófst á föstudag fyrir rúmri viku.

Hinsegin dagar í Madrid eru alla jafna með þeim fjölmennustu í heiminum en nú voru öll met slegin enda komu tugþúsundir gesta alls staðar að úr heiminum. Boðið er upp á fjölbreytta dagskrá með fyrirlestrum, listsýningum, tónleikum, leiksýningum og svo auðvitað fjölbreyttum dansleikjum um alla borg.

Hátíðin náði síðan hámarki þegar gleðigangan hófst seinnipartinn í gær og stóð langt fram á kvöld enda er talið að vel yfir tvær milljónir manna hafi tekið þátt í henni eða fylgst með henni. Þrátt fyrir gífurlegan fjölda gekk allt áfallalítið fyrir sig.

Næsta Heimshátíð verður haldin í New York árið 2019, en þá verða fimmtíu ár liðin frá uppreisn samkynhneigðra gegn lögreglunni í New York á útfarardegi Judy Garland hinn 29. júní 1969, sem markaði upphaf Gay Pride hátíða í Bandaríkjunum árið eftir og síðar heiminum öllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×