Íslenski boltinn

Guðjón: Átti ekki einu sinni orku til að fagna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðjón var hetja Stjörnumanna.
Guðjón var hetja Stjörnumanna. vísir/eyþór
„Þetta var eins sætt og það gerist,“ sagði Guðjón Baldvinsson eftir að hafa tryggt Stjörnunni sigur á KR og sæti í undanúrslitum Borgunarbikars karla með marki á 94. mínútu í leik liðanna í Garðabænum í kvöld.

Stjörnumenn hafa verið í lægð að undanförnu og ekki unnið leik síðan 31. maí. Sigur í kvöld var því afar mikilvægur fyrir Garðbæinga.

„Það hefur verið mikið um meiðsli en núna erum við komnir með okkar sterkasta lið aftur og þá fer þetta að smella saman á ný. Það má segja að þetta sé ný byrjun fyrir okkur,“ sagði Guðjón.

„Við áttum erfiðan leik á fimmtudaginn [gegn Shamrock Rovers]. Við vorum þreyttir og það er ekki séns að ég hefði getað framlenginguna. Það var ánægjulegt að sjá hann inni. Ég átti ekki einu sinni orku til að hlaupa og fagna. Þetta var ljúft,“ bætti markaskorarinn við.

Leikurinn í kvöld var afar harður og leikmenn liðanna gáfu ekki tommu eftir.

„Þetta er bara íslenska deildin. Það er mikil barátta og hart tekist á. Maður er aumur í líkamanum eftir hvern leik. Það var mikið undir í dag og því kannski meiri barátta fyrir vikið,“ sagði Guðjón að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×