„Eftir að ég kynnti mér þetta mál á sínum tíma þegar ég var að vinna fyrir Sævar Marinó [Ciesielski] á öldinni sem leið þá kynnti ég mér ekki eingöngu gögnin sem lágu fyrir Hæstarétti heldur öll þau gögn sem gat náð til. Þar voru kannski merkastar fangelsisdagbækurnar úr Síðumúla,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu Bolladóttur sem dæmd var í þriggja ára fangelsi fyrir hlutdeild sína í málinu.

Lúðvík Bergvinsson, lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Ciesielski, sem dæmdir voru í þrettán og sautján ára fangelsi, tekur undir orð Ragnars.
„Staðreyndin í þessu máli er sú að það eru engin lík. Það er enginn brotavettvangur. Það er ekkert mótíf. Það er ekki nokkur skapaður hlutur nema þessir framburðir sem um ræðir og þeir eru byggðir á það veikum grunni að það er ekki hægt að tala um þetta með öðrum hætti en að þarna hafi verið framið – þú notaðir sjálfur orðið, dómsmorð.“
Viðtalið við Ragnar og Lúðvík má sjá í spilaranum hér fyrir neðan.