Erlent

Dúkur dreginn yfir umdeilda styttu í Charlottesville

Kjartan Kjartansson skrifar
Styttan af Robert E. Lee í Frelsisgarðinum í Charlottesville er nú hulin svörtum dúk.
Styttan af Robert E. Lee í Frelsisgarðinum í Charlottesville er nú hulin svörtum dúk. Vísir/AFP
Borgaryfirvöld í Charlottesville hafa hulið styttu af Robert E. Lee, herforingja Suðurríkjanna, með svörtum dúk til að heiðra minningu konu sem hvítur þjóðernissinni drap þar fyrir tæpum tveimur vikum.

Hópur hvítra þjóðernissinna safnaðist saman í Charlottesville í Virginíuríki laugardaginn 12. ágúst. Yfirlýst tilefni samkomu þeirra var mótmæli gegn áformum borgaryfirvalda um að fjarlægja styttuna af Lee.

Fljótlega sauð upp úr á milli þeirra og mótmælenda sem andæfðu skoðunum þeirra og götuslagsmál brutust út.Einn hvítu þjóðernisöfgamannanna ók í gegnum hóp mótmælenda í göngugötu með þeim afleiðingum að 32 ára gömul kona lést og hátt í tuttugu aðrir særðust.

Vilja fjarlægja stytturnar endanlega

Borgarráðið samþykkti samhljóða að hylja styttuna af Lee og Thomas „Stonewall“ Jackson, öðrum leiðtoga gömlu Suðurríkjanna, á fundi fyrr í vikunni. Borgarstarfsmenn breiddu svartan dúk yfir þær í gær við lófatak viðstaddra, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Yfirvöld vilja fjarlægja stytturnar af þeim Lee og Jackson en geta það ekki á meðan dómstólar fjalla um kærur sem komu fram vegna þeirra áforma.

Styttur og aðrir minnisvarðar um Suðurríkin eru umdeild í Bandaríkjunum. Talsmenn þeirra segja þá aðeins merki um stolt suðurríkjafólks. Fjölmargir telja þær hins vegar tákn um kynþáttahyggju og hatur.

Samkoma hvítu þjóðernissinnanna í Charlottesville var sú stærsta í Bandaríkjunum í áratugi. Donald Trump forseti var gagnrýndur harðlega fyrir viðbrögð sín við henni, ekki síst þegar hann kenndi báðum fylkingum um ofbeldið þar.


Tengdar fréttir

Tekist á um tákn sundraðrar fortíðar

Minnisvarði um Suðurríkin voru miðpunktur mótmæla hvítra þjóðernissinna í Charlottesville um helgina. Tákn Suðurríkjanna hafa lengi verið sundrungarafl í bandarísku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×