Erlent

Tekist á um tákn sundraðrar fortíðar

Minnisvarði um Suðurríkin voru miðpunktur mótmæla hvítra þjóðernissinna í Charlottesville um helgina. Tákn Suðurríkjanna hafa lengi verið sundrungarafl í bandarísku samfélagi.

Kjartan Kjartansson skrifar
Ku Klux Klan-liði með Suðurríkjafána mótmælir að stytta af Robert E. Lee verði fjarlægð í Charlottesville í júlí. Vísir/AFP
Mótmælum hvítra þjóðernissinna í Charlottesville um helgina sem leystust upp í óeirðum og enduðu með dauða gagnmótmælenda var að nafninu til beint að áformum um að fjarlægja styttu af herforingja Suðurríkjanna. Tákn frá Þrælastríðinu hafa valdið kynþáttaspennu um árabil.

Rauður, hvítur og blár fáni Suðurríkjanna var áberandi á meðal hvítu þjóðernissinnanna sem fjölmenntu til Charlottesville í Virginíu um helgina. Þetta var í þriðja skipti á nokkurra mánaða tímabili sem hvítir þjóðernissinnar fylktu liði þangað til að mótmæla því að stytta af Robert E. Lee, herforingja Suðurríkjanna, yrði tekin niður.

Á stórfurðulegum blaðamannafundi í New York í gær tók Donald Trump forseti upp málstað hvítu þjóðernissinnanna og gagnrýndi hann að verið væri að breyta sögu og menningu Bandaríkjanna með því að fjarlægja styttur af leiðtogum Suðurríkjanna.

Neita því að tákn Suðurríkjanna tengist þrælahaldi

Ljóst er að styttur af mönnum eins og Lee og ekki síður Suðurríkjafáninn hefur ólíka merkingu í huga Bandaríkjamanna. Fyrir fjölmarga hafa þessi tákn svipaðan sess og hakakrossinn í hugum Þjóðverja: sársaukafullur minnisvarði um tíma kynþáttahyggju, þrælahalds og mestu sundrungar bandarísku þjóðarinnar fyrr og síðar.

Þeir sem halda fánanum og styttunum á lofti segja þau hins vegar aðeins tákn um þjóðarstolt Suðurríkjafólks og ákvörðunarrétt einstakra ríkja Bandaríkjanna sem bundinn er í stjórnarskránni. Táknin hafi ekkert með þrælahald að gera.

Styttan af Robert E. Lee sem varð kveikja mótmæla hvítra þjóðernissinna í Charlottesville. Lee stjórnaði her Norður-Virginíu gegn Bandaríkjunum í Þrælastríðinu.Vísir/AFP
Styttur af herforingjum og Suðurríkjafánar séu þannig til marks um stolt suðursins yfir að hafa háð stríð „glataðs málstaðar“ í nafni háleitra hugsjóna um stjórnarskrána og réttindi ríkjanna.

Réttindi og sjálfræði einstakra ríkja er enn þann dag í dag eitt helsta stefið í orðræðu hægri vængs bandarískra stjórnmála.

Sögðu sig úr Bandaríkjunum vegna þrælahalds

Þrælastríðið í Bandaríkjunum hófst árið 1861 þegar sjö ríki sögðu sig frá ríkjasambandinu eftir að Abraham Lincoln var kjörinn forseti. Harðar deilur höfðu þá geisað um framtíð þrælahalds sem ríkin í norðri höfðu afnumið.

Ríkin sem sögðu sig upphaflega frá Bandaríkjunum voru Suður-Karólína, Mississippi, Flórída, Alabama, Georgía. Lúisíana og Texas. Síðar bættust Virginía, Arkansas, Tennessee og Norður-Karólína í hóp uppreisnarríkjanna.

Stríðið stóð yfir til 1865 og lauk með sigri sambandssinnanna í norðri og sameiningu Bandaríkjanna. Stríðið batt í raun enda á þrælahald í Bandaríkjunum.

Eins og fram kemur í umfjöllun CNN eru Bandaríkjamenn alls ekki sammála um hverjar orsakir Þrælastríðsins, sem einnig er nefnt Borgarastríðið, voru. Þannig töldu 48% svarenda í könnun Pew árið 2011 að ástæðan hafi verið réttindi ríkja en 38% töldu stríðið hafa snúist um þrælahald.

Sagnfræðingar benda aftur á móti á að réttindin sem ríkin sem sögðu sig frá Bandaríkjunum reyndu að verja var rétturinn til að halda þræla.

Andstæðingar þess að aðskilnaður kynþátta væri afnuminn mótmæla við skóla í Alabama árið 1963.Vísir/Getty
Spruttu upp á tímum kynþáttaspennu

Minnisvarðar um hetjur Suðurríkjanna risu fyrst og fremst um og eftir aldamótin 1900. Um það leyti voru leiðtogar og hermenn úr stríðinu margir horfnir yfir móðuna miklu en gömlu Suðurríkin voru farin að koma á Jim Crow-lögunum svonefndu sem viðhéldu aðskilnaði kynþáttanna þar.

Bent er á að kippur kom aftur í framkvæmdagleði við styttur og minnisvarða um Suðurríkin á 6. og 7. áratug síðustu aldar, einmitt þegar baráttan um borgararéttindi blökkumanna og afnám aðskilnaðar kynþátta var í algleymingi.

Þannig telja sumir að minnisvarðarnir séu í raun beint tengdir við tímabil kynþáttahyggju.

„Á yfirborðinu voru þetta minnisvarðar um Suðurríkin og hetjur þeirra. Engu að síður voru þeir reistir á tíma kynþáttaofbeldis og sterkrar trúar á yfirburði hvíta kynþáttarins. Sú staðreynd að þeir hafi verið reistir við héraðs- og ríkisráðhús var af yfirlögðu ráði. Skilaboðin voru: hvítir menn stjórna,“ segir Karen L. Cox, sagnfræðiprófessor við Norður-Karólínuháskóla við vefsíðuna Politifact.

 

Svartir feðgar á fyrsta skóladeginum eftir að aðskilnaði kynþátta í skólakerfinu í Alabama var hætt. Sums staðar meinuðu lögreglumenn þó svörtum börnum að mæta í skólana sem höfðu áður verið aðeins fyrir hvíta.Vísir/Getty
Fáni fordóma eða frelsis?

Það var hins vegar upp úr miðri 20. öldinni sem fáni Suðurríkjanna var að tákni um andstöðu við afnám aðskilnaðar svartra og hvítra. Bent er á að það hafi verið á þessum tíma sem kynþáttahatararnir í Ku Klux Klan tóku upp Suðurríkjafánann.

„Valið að flagga Suðurríkjafánanum á opinberu landi varð að almennri birtingarmynd andstöðu á tíma borgararéttindabaráttunnar, frekar en að reisa nýjar styttur,“ segir Khalil Gibran Muhammad, prófessor í sagnfræði, kynþáttum og opinberri stefnumótun við Kennedy-skóla Harvard-háskóla við Politifact.

Þannig þarf enginn að velkjast í vafa um að tákn gömlu Suðurríkjanna hafa verið notuð í nafni kynþáttahyggju síðustu áratugina.

Hvítir þjóðernisöfgamenn hafa ítrekað mætt til Charlottesville til að mótmæla síðustu mánuði.Vísir/AFP
Fleiri en 700 minnisvarðar um Suðurríkin

Á meðan hefur svart fólk í suðurríkjum Bandaríkjanna mátt þola það að aka eftir götum eða setjast í skugga stytta í almenningsgörðum sem bera nöfn manna eins og Lee sem börðust fyrir því að forfeður þeirra skyldu áfram þræla á ekrum hvítra manna.

Mannréttindasamtökin Southern Poverty Law Center, sem fylgjast með öfgahægrihreyfingum, áætluðu að fleiri en sjöhundruð minnisvarðar eða styttur til heiðurs Suðurríkjunum sálugu væru á opinberu landi í fyrra, að því er segir í frétt ABC-fréttastöðvarinnar.

Vaxandi krafa hefur verið um að minnisvarðar af þessu tagi verði fjarlægðir í kjölfar voðaverka hvítra þjóðernissinna og mótmæla gegn lögregluofbeldi gegn svörtu fólki síðustu árin. Slíkar aðgerðir hafa skapað spennu í mörgum gömlu Suðuríkjanna.

Dylann Roof var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða níu blökkumenn með köldu blóði árið 2015.Vísir/AFP
Yfirvöld á nokkrum stöðum í gömlu Suðurríkjunum ákváðu að fjarlægja fána gömlu Suðurríkjanna sem hafði verið flagga á opinberum byggingum eftir að Dylann Roof, ungur hvítur þjóðernissinni, skaut níu svarta kirkjugesti til bana í Charleston í Suður-Karólínu 17. júní 2015.

Nikki Haley, þáverandi ríkisstjóri Suður-Karólínu og núverandi sendiherra Bandaríkjanna við Sameinuðu þjóðirnar, gaf vilyrði sitt fyrir því að borgaryfirvöld í Columbia, höfuðborg ríkisins fjarlægðu Suðurríkjafánann af ríkisráðhúsinu.

Í samantekt ABC kemur fram að lögregla þurfti að skerast í leikinn þegar hópur stuðningsmanna Suðurríkjafánans hugðust flagga honum í Columbia í síðasta mánuði og hópur fólks mótmælti þeim.

Styttur fjarlægðar í skjóli nætur

Eftir hörmungarnar í Charlottesville um helgina hefur enn dregið til tíðinda hvað varðar minnisvarða um Suðurríkin. Þannig reif hópur mótmælenda niður styttu af Suðurríkjahermanni í Durham í Norður-Karólínu á mánudag.

Í ljósi athyglinnar sem umræðurnar um hvort að taka ætti niður styttuna af Robert E. Lee í Charlottesville fékk frá hvítum þjóðernissinnum hafa yfirvöld annars staðar reynt að komast hjá viðlíka uppákomum.

Þannig tilkynntu borgaryfirvöld í Baltimore í Maryland, þar sem mikill meirihluti íbúa er svartur, að þau hefðu fjarlægt nokkra minnisvarða um Suðurríkin í skjóli nætur í dag við fögnuð fámennra hópa sem urðu vitni að því, að sögn New York Times.

Stytturnar af mönnum sem voru röngu megin sögunnar enda þannig að margra mati réttilega á ruslahaugi sögunnar. Ef marka má atburðina í Charlottesville vex haturshópum sem telja brotthvarf minnisvarðanna atlögu á sögu hvítra manna í Bandaríkjunum hins vegar ásmegin.


Tengdar fréttir

„Þetta er okkar land“

Fréttakona Vice News fylgdi leiðtogum þjóðernissinna eftir í Charlottesville.

Myndasyrpa frá átökunum í Charlottesville

Þegar hópar þjóðernissinna sem komu saman í Charlottesville í Bandaríkjunum mættu gagnmótmælendum um helgina kom fljótt til átaka þeirra á milli.






×