Erlent

Schultz verður kanslaraefni þýskra Jafnaðarmanna

atli ísleifsson skrifar
Martin Schulz hefur gegnt embætti forseta Evrópuþingsins frá árinu 2012.
Martin Schulz hefur gegnt embætti forseta Evrópuþingsins frá árinu 2012. Vísir/AFP
Þýski Evrópuþingmaðurinn Martin Schultz verður að öllum líkindum kanslaraefni þýskra Jafnaðarmanna í þingkosningunum sem fara fram í landinu næsta haust. Hann mun þar kljást við Angelu Merkel, kanslara og leiðtoga Kristilegra demókrata, sem sækist eftir endurkjöri.

Fréttirnar koma nokkuð á óvart þar sem búist var við að varakanslarinn Sigmar Gabriel yrði kanslaraefni flokksins. Í samtali við Die Zeit segist ekki munu sækjast eftir stöðunni en Jafnaðarmenn velja kanslaraefni sitt næsta sunnudag.

Schultz lét nýverið af embætti sem forseti Evrópuþingsins – embætti sem hann hafði gegnt frá 2012 – til að hella sér á ný út í þýsku landsmálin.

Í frétt SVT kemur fram að Gabriel hafi sætt talsverðri gagnrýni innan flokksins og hefur fylgi flokksins ekki mælst mikið. Vonast er til að Schultz takist að gera betur.

Flestir töldu að Schultz myndi taka við embætti utanríkisráðherra af Frank-Walter Steinmeier sem verður að öllum líkindum kosinn forseti landsins í næsta mánuði. Að sögn Die Zeit vill Gabriel hins vegar taka við embætti utanríkisráðherra.

„Schulz á meiri möguleika á að verða kanslari en ég,“ segir Gabriel í samtali við Stern Magazine. „Mér myndi mistakast, líkt og Jafnaðarmannaflokkurinn.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×